Elska að kenna og búa til hluti

Einarína og hundurinn Tumi.
Einarína og hundurinn Tumi.

Ég er þriggja barna móðir og starfa sem grunnskólakennari í Árskóla þar sem ég kenni textílmennt og ensku. Ég elska að hjóla úti með hundinn minn og almennt alla hreyfingu en helst í náttúrunni þar sem ég er mikið náttúrubarn. Það gefur mér mikið að geta starfað með börnum að skapa hluti, þó það sé með textílefnum, þá legg ég mikið upp úr endurvinnslu og endurnýtingu í saumastofunni sem sést kannski svolítið á því handverki sem krakkarnir eru að koma með heim úr skólanum. Ég hef nú búið hér í 20 ár, flutti hér Skagafjörðinn 2002 og er það honum Magga í Hestasport að þakka að ég er hér nú því hann var minn fyrsti vinnuveitandi í firðinum þar sem ég kynnti íslenska hestinn fyrir erlendum ferðamönnum.

Hve lengi ég hef stundað hannyrðir?

Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á handverki og byrjaði að teikna og mála. En áhuginn kviknaði á handverki þegar ég var að selja það fyrir ýmsa handverks aðila á landinu. Sá t.d. um útimarkað á Egilsstöðum á vegum bæjarins þar sem ég seldi handverk fyrir handverksfólk á Austurlandi. Byrjaði síðan sjálf að hanna og búa til þegar ég var með föndurvöru.- og minjagripaverslun á Akureyri til skamms tíma. Það heillaði mig mest að vinna með tré efnivið, hvort sem um er að ræða úr skóginum eða rekavið úr fjörunni. Ég kem úr fjölskyldu sem er mjög skapandi og við vorum öll mjög ung þegar við vorum virkjuð í að búa til hluti og selja. T.d. vorum við fjölskyldan með bolluvendamarkaðinn um allt Suðurland í u.þ.b. 10 ár á sínum tíma. Mamma og pabbi voru mjög úrræðagóð enda stór fjölskylda með 10 börn. Ég var fljótlega hrifinn með í félagsskapinn Alþýðulist í Varmahlíð og hefur það allar götur síðan verið minn eini sölustaður með mínar vörur fyrir utan nýverið þá hefur Facebook komið sterkt inn líka og þar sel ég aðallega til útlanda.

Hvaða handavinna mér finnst skemmtilegast og hvað ég geri almennt þessa stundina:

Ég bý aðallega til nytjamuni úr birki, lerki og reka, eins og t.d. spegla, upphengi, dagatöl, klukkur og margskonar skrautmuni sem hægt er að persónugera. Ég áttaði mig fljótt á því að Skagafjörðurinn væri mest þekktur fyrir hestana og eyjarnar og því ákvað ég leggja áherslu á að hlutirnir mínir væru þá með einhverja vísan í það. Hestarnir eru annarsvegar hjá mér á tölti eða skeiði og eru þeir unnir í sameiningu með bróður mínum honum Pálma í Gautavík í Berufirði. Nýlega byrjaði ég síðan að gera part af handverkinu mínu úr endurunnum dagblöðum sem ég geri leir úr og því get ég mótað og búið til úr því torfbæi og Drangey ofl. sem eru þá hluti af handverkinu eins og sést á myndunum hér að neðan.

Hvaðan ég fæ hugmyndir, hvaða handverk ég var ánægðust með:

Ég legg mikið upp úr að vera með sem mest úr náttúrunni og það sem ég finn. Ég kem örugglega sponskt fyrir sjónir stundum þegar ég geng um í fjörunni og tíni reka og skeljar með gamalli innkaupakörfu úr búðinni minni. Einnig nota ég gróður úr náttúrunni sem ég þurrka og hef með sem skraut sem og gamlar og helst ryðgaðar hóffjarðir og hafa margur hestamaðurinn rekið upp stór augu þegar ég hirði úr ruslinu hjá þeim gömlu fjarðirnar. Það má eiginlega segja að ég er mikill aðdáandi endurvinnslu og finnst því einstaklega gaman að skapa eitthvað úr því sem fellur til og þá gjarnan úr fjörunni enda heitir mitt litla handverksfyrirtæki “Spor í Fjörunni”.  Ég læt yfirleitt efniviðinn segja mér hvað skal verða úr honum, sérstaklega rekaviðurinn. Þær spýtur eru svo fjölbreyttar og engin er eins. Ég legg mikið upp úr því að gera einstakt handverk sem er bara til eitt af. Hægt er að panta svo sem spegla og ýmsa nytjahluti sem eru kannski svipaðir því sem fólk sér á mynd, en auðvitað ekki nákvæmlega eins. Vorið og sumar tíminn er yfirleitt notaður í útivist og að fylgja eftir dótturinni í fótboltanum og því er ég almennt ekki mikið að búa til vörur í handverks kompunni minni á þeim tíma en nýti frekar veturinn til að selja vel fyrir jólin og koma mér upp lager fyrir næsta sumar sem er aðal sölutíminn í Alþýðulist í Varmahlíð. Ég get eiginlega ekki bent á neitt sérstakt handverk sem ég er eitthvað ánægðari með en önnur, ef ég næ því markmiði að geta búið til eitthvað sem er sérstakt í huga þess sem kaupir þá er mínu markmiði náð. Ég hef búið til marga slíka einstaka hluti sem fólk hefur sérpantað sem þau hafa þá getað gefið í gjafir sem tryggir þá um leið að engin annar er að gefa eins. Kannski minnistæðast að hafa málað stórt olíumálverk af hryssu og folaldi sem er víst í eigu einhvers hér á Hofsósi en það var í öðru lífi því ég á eina skrautlegustu ferilskrá sem verður ekki rakin hér.. það þyrfti nokkrar blaðsíður í það. Þakka fyrir mig.

Áður birst í tbl. 28 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir