Endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði

Ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunar gróðursettu nýlega fjórtán hundruð birkiplöntur til endurheimtunar Brimnesskóga vestan við ána Kolku í Skagafirði. Landsvirkjun hefur lagt verkefninu lið um árabil undir yfirskriftinni “Margar hendur vinna létt verk“. Gróðursettar voru um fjögur hundruð plöntur í 1,5 lítra pottum og um eitt þúsund plöntur í 15 gata bökkum. Allar voru plönturnar gróðursettar með skít og skóflu, sem kallað er. Að þessu sinni var gróðursett kynbætt birki sem á rætur að rekja í Geirmundarhólaskóg í Hrolleifsdal.
Landið sem gróðursett er í er í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, en það er Brimnesskógar, félag sem stendur að framkvæmdunum. Unnið hefur verið í sjálfboðavinnu að verkefninu um nokkurt árabil. Við endurheimt Brimnesskóga er einungis gróðursett birki og vefjaræktaður reyniviður sem upprunnin er í Skagafirði. Áfram verður gróðursett við endurheimt Brimnesskóga að ári.
Áður hefur verið á ræktunarsvæðinu gróðursett birki úr Gljúfurárgili í Út- Blönduhlíð og úr Fögruhlíð í Austurdal. Birkið sem notað er í verkefninu hefur verið rannsakað af sérfræðingum við Háskóla Íslands og er það sagt vera „mjög sérstakt“. Gert er ráð fyrir að kynbætta birkið verði fljótvaxið, beinstofna og ljósara á börk en það birki sem ekki er kynbætt. Kynbæturnar hafa farið fram í Gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík en ræktunin hefur að mestu farið fram í gróðrarstöðinni Barra á Valgerðarstöðum.
Margir hafa orðið til að leggja verkefninu lið. Að þessu sinni lögðu hönd á plóg auk Landsvirkjunar, Vörumiðlun, Skagfirðingabúð og Flokka á Sauðárkróki. Brimnesskógar félag, vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa endurheimt Brimnesskóga lið á einn eða annan hátt.
/Fréttatilkynning