ENDURSKOÐUN STJÓRNARSKRÁRINNAR

 Almennt
 Stjórnarskráin er ekki tilraunaverkefni. Stjórnarskráin er undirstaða laga og réttar í samfélaginu, undirstaða sem þarf eins og aðrar slíkar að standa sem mest óhögguð. Því þarf að færa stjórnarskrána til betri vegar án þess að raska þeim grunngildum sem hún byggir á og varðveitir.

 

 

Fyrst er að nefna að endurskoða þarf ákvæði um forsetaembættið, þjóðaratkvæðagreiðslur og röðun á kjörlista. Setja þarf inn ákvæði um umhverfismál.

Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu

Við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú er hafin, á að gæta þess að hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er sjálfstætt mál sem ekki má trufla þessa endurskoðun. Ef til þess kemur, þá verður það sjálfstæð ákvörðun að breyta stjórnarskránni til að gera aðild Íslands að Evrópusambandinu mögulega.

Jafnrétti og mannréttindi

Tæplega er ágreiningur um nauðsyn jafnréttis og mannréttinda öllum til handa, en skilgreina þarf hvað felst í hugtökunum. Jafnrétti og mannréttindi kosta stundum peninga, og það er mjög áleitin spurning hvernig á að túlka þessi hugtök þegar spara þarf opinbert fé. Einfalt dæmi í þessu efni er réttur kvenna til faglegrar þjónustu við fæðingu, sem og réttur eldra fólks til búsetu í heimabyggð þegar þörf er á sérhæfðri öldrunarþjónustu.

Íslenska þjóðkirkjan

Hin evangelíska lúterska kirkja á að vera áfram þjóðkirkja á Íslandi.

Eignarrétturinn

Eignarrétturinn skal áfram vera friðhelgur, enda grunnforsenda velferðar og siðaðs samfélags.

Auðlindir og þjóðareign

Brýnt er að skilgreina hvað felst í orðinu auðlind. Fyrr en því er lokið er ekki hægt að ákveða hvernig með á að fara. Það er t.d. augljóst að íslensk gróðurmold er ein af dýrmætustu auðlindum landsins, en hún er að yfirgnæfandi meiri hluta í einkaeign. Sama gildir um vatnið sem rennur um eignarlönd og það líf sem í því þrífst.

Skilgreina þarf hugtakið þjóðareign og hver getur verið handhafi hennar. Þegar því er lokið, er hægt að ákveða hvaða auðlindir skuli skilgreina þannig. Verði ákveðið að skilgreina fiskimið innan íslenskrar lögsögu sem þjóðareign í stjórnarskrá, þarf jafnframt að fjalla um rétt þeirra byggða sem byggja tilveru sína á nýtingu auðlindarinnar.

Undir engum kringumstæðum mega þær breytingar sem kunna verða gerðar á stjórnarskránni, leiða til þess að þjóðlendustríðið (þar sem nú er vopnahlé að kalla) verði enn  harðara. Enn síður má leggja drög að nýju stríði á hendur landeigendum, grundvallað á sókn í gróðurmold, vatn eða hlunnindi hvers konar sem fylgt hafa jörðum frá landnámi.

Sjá nánar á thorolfu.blog.is 

Þórólfur Sveinsson,  2567

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir