Engar lóðir lausar á Sauðárkróki

Lóðaleysi á Króknum. MYND: ÓAB
Lóðaleysi á Króknum. MYND: ÓAB

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði sem haldinn var í gær kom fram að hjá skipulags- og byggingarfulltrúa liggi fyrir umsóknir um lóðir fyrir einbýlishús í Túnahverfinu á Sauðárkróki. Öllum byggingarhæfum lóðum í hverfinu hafi verið úthlutað og beinir því nefndin því til byggðarráðs að hefja framkvæmdir við gerð nýrrar götu, Melatúns.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum undir íbúðarhúsnæði og í fundargerð byggðarráðs frá 9. mars 2017 kemur fram að byggðarráð samþykkir að fela veitu- og framkvæmdasviði að hefja undirbúning og hönnun á hinni nýju götu, Melatúni, og jafnframt er óskað eftir því við skipulags- og byggingarnefnd að hafinn verði undirbúningur að hönnun nýs íbúðahverfis á Sauðárkróki.

Hin nýja gata á Sauðárkróki er fyrirhuguð ofan Kleifatúns og í samstarfssamningi meirihluta sveitarstjórnar frá því í vor kemur fram að stefnt sé á að hafnar verði framkvæmdir við Melatún á Sauðárkróki á árinu 2018.

Á vef sveitarfélagsins má sjá að engar lóðir eru lausar fyrir íbúðarhúsnæði á Sauðárkróki en á Hofsósi og í Varmahlíð eru einhverjar lóðir á lausu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir