Kynningarefni vegna kosninga um sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar

Húnabyggð og Skagabyggð hafa sett á vefsíður sínar kynningarefni vegna kosninga um sameiningu sveitarfélaganna, sem fram fara 8. til 22. júní næstkomandi. Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér efnið. Áætlað er að halda íbúafund í Skagabúð mánudaginn 3. júní kl. 20 og í Félagsheimilinu á Blönduósi þriðjudaginn 4. júní klukkan 20. Boðið verður upp á rafrænan aðgang að fundunum.

Í kynningarefninu er farið yfir forsendur sameiningarviðræðnanna, m.a. stefnu stjórnvalda um aukna sjálfbærni sveitarfélaga, vaxandi kröfur til sveitarfélaga og kröfur íbúa til þjónustu. Stefna stjórnvalda er m.a. að stuðla að færri og stærri sveitarfélögum í þeim tilgangi að tryggja að þau geti sinnt lögbundnum verkefnum. Í sveitarstjórnarlögum eru ákvæði um að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga sé ekki undir 1.000 íbúum. Í kynningarefninu er einnig að finna stutta stöðugreiningu á sveitarfélögunum, umfjöllun um fjallskilamál, lýðfræðilega þætti og fjárhag.

Sveitarstjórn og heimastjórn í sameinuðu sveitarfélagi

Tillögu samstarfsnefndar er einnig að finna í kynningarefninu og þar kemur fram að sveitarstjórn Húnabyggðar verður sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ef sameining verður samþykkt. Skipuð verði heimastjórn fyrir Skagabyggð sem í sitja núverandi aðalmenn í sveitarstjórn Skagabyggðar. Varamenn í sveitarstjórn verða varamenn í heimastjórn. Markmið með heimastjórn er að tryggja áhrif íbúa á ákvörðunartöku hins sameinaða sveitarfélags varðandi nærumhverfi þeirra. Gert er ráð fyrir að leitað verði eftir samningi við Sveitarfélagið Skagaströnd um að að börn geti sótt leik- og grunnskóla og tómstundir á Skagaströnd kjósi foreldrar þeirra það. Eins yrði leitað eftir samningum um áframhaldandi þátttöku aldraðra og öryrkja sem þess óska í félagsstarfi og um samstarf við slökkvilið til að tryggja öryggi og viðeigandi viðbragð.

„Það er mat samstarfsnefndar að vöxtur svæðisins byggi á sameiningu. Sameinað sveitarfélag hefur meiri burði til að tryggja íbúum góða þjónustu og stuðla að blómlegu og kraftmiklu samfélagi til framtíðar,“ segir í tillögu nefndarinnar.

Aðkoma ríkis og Jöfnunarsjóðs

Þá er farið yfir aðkomu ríkis og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að sameiningunni. Þar kemur fram að engin framlög eru greidd vegna Húnabyggðar en mögulega gæti komið framlag til innviðaruppbyggingar leik- og grunnskóla að fjárhæð 100 milljónir. Framlag til endurskipulagningar þjónustu og stjórnsýslu er áætlað 100 milljónir og byggðaframlag vegna íbúaþróunar er áætlað 14 milljónir. Þá er gert ráð fyrir framlagi til nýsköpunar- og þróunarvinnu að fjárhæð 40 milljónir. Samtals gæti því stuðningur Jöfnunarsjóðs numið 254 milljónum vegna sameiningarinnar. Þá hefur Vegagerðin upplýst að hún muni ráðast í endurbyggingu Skagavegar frá Harrastöðum og út fyrir Brunanámur.

Kynningarefnið má lesa hér >

/Frétt af Húnahorninu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir