Söngur úr norðri og suðri

Sunnudaginn 5. október næstkomandi munu Kristinn Sigmundsson, Helga Rós Indriðadóttir og Kolbeinn Jón Ketilsson halda stórtónleika í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Með þeim á píanó leikur Matthildur Anna Gísladóttir. Á efnisskránni verða íslensk og erlend sönglög og dúettar úr ýmsum áttum eftir Sigvalda Kaldalóns, Eyþór Stefánsson, Franz Schubert, Francesco Paolo Tosti, Franz Lehár og fleiri. Miðasala verður við innganginn og miðaverð er 4.900 kr. Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00

 

Kristinn Sigmundsson hefur haft söng að aðalstarfi síðan 1984. Fyrst hér heima, en frá árinu 1989 hefur hann að mestu starfað erlendis. Hann hefur komið fram í flestum stærstu óperuhúsum heims og hefur sungið á annað hundrað óperuhlutverka, þar á meðal flest stærstu bassahlutverk Wagners.

Kolbeinn Jón Ketilsson hefur sungið mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. titilhlutverkiní Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo, Parsifal, Tristan, Tannhäuser og Lohengrin. Hann hefur starfað með þekktustu
hljómsveitarstjórum heims á borð við Antonio Pappano, Lorin Maazel og Zubin Metha. Auk þess að syngja í óperum kemur Kolbeinn einnig reglulega fram sem ljóðasöngvari og einsöngvari í hljómsveitaverkum.
 
Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona starfaði í Stuttgart í Þýskalandi um árabil. Hún var fastráðin við óperuhúsið þar í borg og söng m.a. Freyju í Rínargulli Wagners, eina af Valkyrjunum og Rínardóttur í Ragnarökum eftir sama höfund. Helga Rós fór með hlutverk Elísabetar drottningar í Don Carlo í Hörpu hjá Íslensku Óperunni þar sem Kristinn Sigmundsson fór með hlutverk Filippusar konungs. Helga Rós er starfandi tónlistarkennari við Tónlistarskóla Skagafjarðar og stjórnar kvennakórnum Sóldísir. Á síðasta starfsári fór hún í einsöngshlutverk með kórnum í dagskránni “Dísir & Dívur”.
 
Matthildur Anna Gísladóttir lauk bachelornámi í einleik frá Listaháskóla Íslands árið 2007 undir leiðsögn Peter Máté. Einnig lauk hún mastersnámi í meðleik við Royal Academy of Music í London með Andrew West sem aðalkennara og mastersnámi í óperuþjálfun frá Alexander Gibson Opera School í Royal Conservatoire of Scotland. Matthildur er virkur flytjandi innlendis sem erlendis. Hún hefur komið fram á fjölda tónleika og komið að óperuuppsetningum m.a. hjá Íslensku óperunni. Matthildur er fastráðinn meðleikari í Listaháskóla Íslands.

Fleiri fréttir