Umræðan og samstarfið | Friðbjörn Ásbjörnsson skrifar

Friðbjörn Ásbjörnsson framkvæmdastjóri FISK Seafood. AÐSEND MYND
Friðbjörn Ásbjörnsson framkvæmdastjóri FISK Seafood. AÐSEND MYND

Ég hef í þessum áramótapistlum mínum síðustu árin reynt að varðveita hátíðarskapið og meta stöðuna og framtíðarhorfur hverju sinni af yfirvegun gagnvart því sem hvorki við í FISK Seafood né þjóðin öll höfum nokkra stjórn á. Á meðal þess er margt sem skiptir afkomu hvers árs miklu máli; veðurfar og gæftir, verð á erlendum mörkuðum, heimsmarkaðsverð á olíu, breytingar í neyslumynstri fólks á okkar stærstu markaðssvæðum o.s.frv.

Ég hef líka reynt að temja mér varfærni þegar ég hef bent á ýmislegt sem mér hefur þótt betur mega fara á sviðum sem þjóðin sjálf hefur á valdi sínu og skiptir stöðugleika rekstrarumhverfisins miklu máli; hafrannsóknir og veiðiráðgjöf, veiðigjöld, fyrirkomulag byggðastuðnings í gegnum kvótaúthlutanir og regluverk, vaxtastig og verðbólgu, skattlagningu á útgerðina o.s.frv.

Markmið mismunandi stjórnvalda á hverjum tíma eru án efa ávallt þau sömu: Að nýta sjávarauðlindir okkar með sjálfbærum hætti annars vegar og hins vegar að hámarka verðmæti þess afla sem við drögum úr sjó.

Leiðirnar að þessum einföldu markmiðum eru á hinn bóginn margar og eflaust eru þær allar flóknar. Þegar við bætast ólík sjónarmið um hvernig – og í hvaða mæli – sé best að skila afrakstrinum í vasa landsmanna er viðbúið að umræðan um sjávarútveginn verði aldrei tæmd.

Sama gildir auðvitað um rekstrarþætti atvinnulífsins í heild sinni. Áhugi, umfjöllun og skoðanaskipti eru einungis af hinu góða enda skapar atvinnulífið öll þau verðmæti sem við höfum til ráðstöfunar á hverjum tíma. Árangur þess ræður öllu um lífskjör okkar, menntun barnanna og unga fólksins, heilbrigðisþjónustu, ævikvöld aldraðra og allt annað sem við ætlumst til að sé ekkert minna en fyrsta flokks.

Okkur hefur í öllum aðalatriðum tekist að búa verðmætaskapandi atvinnulífi góða umgjörð. Ég held að á engan sé hallað þó ég leyfi mér að telja þar sjávarútveginn fremstan í flokki. Viðsnúningurinn í afkomu hans frá því sem var um miðja síðustu öld er ævintýralegur. Okkur hefur líka tekist að halda öðrum undirstöðuatvinnuvegi, landbúnaðinum, gangandi. Án blómlegra sveita landsins væri svo þriðja grunnstoðin, ferðaþjónustan, væntanlega í skötulíki miðað við vöxt hennar og umfang um þessar mundir. Græna orkan okkar verður sífellt eftirsóttari og stóriðja hefur einnig skipt okkur miklu um áratuga skeið.

Mér hefur alla tíð þótt sjálfsagt að virða og laga mig að ákvörðunum hinna lýðræðislega kjörnu stjórnvalda um málefni sjávarútvegsins. Ég hef hins vegar oft sett spurningarmerki við flausturslegan aðdraganda, litla rannsóknarvinnu og skort á samtali við þá sem þekkja lífríki hafsins eins og lófann á sér og hafa jafnvel eytt stærstum hluta ævi sinnar á sjó. Allir sem fylgst hafa með síðustu ákvarðanatökum stjórnvalda um málefni sjávarútvegsins hafa séð að þar hefur samtalið verið í lágmarki og samstarfið ekkert.

Nýgerðir makrílsamningar eru nýjasta dæmið um það. Samráðið við atvinnugreinina virðist ekkert. Áhersla hefur verið lögð á mikilvægi þess að Ísland sé viðurkennt sem strandríki gagnvart Bretum, Norðmönnum og Færeyingum hvað varðar makrílveiðar. Áhyggjuefnið er hins vegar að hvorki Grænland né ESB eru aðilar að samkomulaginu.

Staða íslenskrar útgerðar í alþjóðlegum samanburði er um margt sérstök. Enginn dregur í efa náttúruleg gæði aflans og ítrustu fagmennsku við vinnslu hans. Til viðbótar hefur fiskveiðistjórnunarkerfi okkar vakið athygli um allan heim. Útgerð okkar og fiskvinnsla býr til gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið á sama tíma og sjávarútvegur flestra landa heims lepur dauðann úr skel og myndi í raun aldrei þrífast nema í krafti ríkisstyrkja.

Við getum því verið stolt af íslenskum sjávarútvegi. En jafnvel þó við værum best í heimi getum við orðið miklu betri. Og við þurfum að verða betri til þess að lifa af samkeppnina við niðurgreiddan sjávarútveg í samkeppnislöndum okkar. Við þurfum líka að bæta okkur til þess að koma enn frekar til móts við stöðugt kröfuharðari neytendur á sviði ýmissa umhverfisþátta.

Þessum áskorunum verður aldrei mætt nema með fjárhagslegu svigrúmi til stöðugrar endurnýjunar skipa, veiðarfæra, tækja og búnaðar, stóraukinnar þekkingaröflunar á lífríki sjávar, fyrsta flokks aðbúnaðar starfsfólks til sjós og lands og greiðslu launa sem bæði laða til okkar og festa í sessi starfsfólk í fremstu röð. Öðruvísi getur reksturinn aldrei talist sjálfbær.

Ég hef oft gert það að umtalsefni að Íslendingar verði að taka hafrannsóknir miklu fastari tökum en gert hefur verið. FISK Seafood hefur, reyndar eins og fleiri útgerðir, margsinnis boðið Hafrannsóknastofnun að nýta alls kyns upplýsingar úr veiðitúrum okkar. Við höfum líka boðið vísindamönnum stofnunarinnar pláss um borð án endurgjalds vilji þeir nýta túrana til sérstakra rannsókna. Þessi boð um aukið samstarf útgerðar og vísinda hafa ekki verið þegin.

Allir eru sammála um að veiðar megi aldrei ganga of nærri nytjastofnum. En sjálfbærni veiða getur ekki snúist um það eitt að forðast ofveiði heldur verður líka að nýta tegundirnar upp að þolmörkum sínum. Þess vegna eigum við að fjárfesta í miklu betri þekkingu á vexti og viðgangi fiskistofna og lágmarka þætti ágiskana í fiskveiðistjórnun okkar.

Í grunninn snúast gæði hafrannsókna um fjármagn og forgangsröðun þess. Neytendur um allan heim eru háðir fiskveiðum strandríkjanna og það er að sjálfsögðu hagsmunamál þeirra allra, en ekki landa sem liggja að sjó eingöngu, að stórauka vísindalega þekkingu á því svigrúmi sem hafið býður upp á til fæðuframleiðslu. Sjórinn þekur 71% af yfirborði jarðar og í honum eru um 97% af heildarrúmmáli vatns á jörðinni. Þegar dýpið í þessum 1,35 billjónum rúmkílómetra af sjó er allt að ellefu kílómetrar er vissulega ekki heiglum hent að þekkja lífríki hafsins út í hörgul. En betur má samt ef duga skal. Á grundvelli aukinnar þekkingar og sjósóknar á heimsvísu getum við sótt svo miklu meira gull í greipar Ægis.

Sjórinn þekkir engin landamæri og umgengni heimsbyggðarinnar við hann skiptir okkur Íslendinga væntanlega meira máli en flestar – ef ekki allar – þjóðir heims. Hreinleiki sjávarins og um leið heilnæmi allrar þeirrar villibráðar sem við sækjum til hans, getur haft gríðarleg áhrif á ímynd afurðanna og um leið verðlagningu þeirra. Það er t.d. langt í frá sjálfgefið að villtur fiskur, sem í gegnum fæðukeðjuna þrífst í grunninn á ljóstillífun þörunga og dýrasvifi, muni um aldur og ævi hafa sterkari stöðu í hugum kröfuharðra og vel upplýstra neytenda en t.d. eldisfiskur og önnur próteinframleiðsla til manneldis. Þess vegna þurfum við að leggja okkar af mörkum til vísindastarfs og virðingar við lífríki hafsins.

Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við hvernig stöðugt er talað niður til okkar helstu atvinnugreina. Stuðningur við landbúnaðinn, fjöregg fæðuöryggis þjóðarinnar, virðist eilífðar þrætuepli rétt eins og að hagnaður hinna greinanna virðist stöðugt eitur í beinum margra þeirra sem taka til máls. Sem betur fer hefur fólk áhuga á málefnum atvinnulífsins og skoðanaskiptin veita í senn aðhald og eru hvatning til dáða.

Það er hins vegar umræðuhefðin, upphrópanirnar, sleggjudómarnir, ásakanirnar og slaufunarmenningin sem veldur mér áhyggjum – og ég veit að ég er ekki einn um þá skoðun. Með samfélagsmiðlum, hlaðvörpum, fésbókarsíðum og öðrum rafrænum tengingum eru fjölmiðlar í raun orðnir jafnmargir einstaklingunum. Umræðan virðist ekki einungis gefa stjórnvöldum svigrúm, heldur jafnvel vera þeim hvatning, til þess að blóðmjólka atvinnulífið þannig að helst líkist því að verið sé að éta útsæðið

Smellubeitur fjölmiðla og bræðibeitur samfélagsmiðlanna eru allsráðandi í umræðunni. Aðvaranir Einars Benediktssonar í Einræðum Starkaðar um að aðgát skuli höfð í nærveru sálar virðast engu skipta. Heldur ekki það grundvallaratriði í réttarríki okkar að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Margir hafa á undanförnum árum leyft sér af ýmsum tilefnum að láta stór orð falla sem síðar hefur komið í ljós að engin innistæða var fyrir. Tillitslaus umræða um málefni Samherja hefur meitt fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Mér kæmi það ekki á óvart að þegar öll kurl eru komin til grafar í því máli og fleirum muni margir sem tjáðu sig rifja upp spurningu þjóðskáldsins: „Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka.“

Þær systur, Öfund og Afbrýði, hafa kannski komið því til leiðar að íslenskur sjávarútvegur muni seint njóta sannmælis í daglegri umræðu – að minnsta kosti ekki á meðan honum gengur vel. Stærsti misskilningur systranna og reyndar margra annarra er að hér starfi risastórar útgerðir sem hagnist gríðarlega og taki að auki alltof stóran hlut arðsins af eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.

Hið rétta er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru öll örfyrirtæki í samanburði við samkeppnisumhverfi sitt, þar sem sjávarútvegurinn um allan heim er víðast hvar myndarlega ríkisstyrktur. Hagnaður er forsenda stöðugrar endurnýjunar í tækjum og tólum og hún er undirstaða alþjóðlegrar samkeppnishæfni okkar. Í landbúnaðinum er nákvæmlega sama staða uppi. Íslenskur fjölskyldubúskapur, sem starfar innan krefjandi regluverks um hvers kyns gæði, keppir við risafyrirtæki um allan heim sem jafnvel búa við minni gæðakröfur og njóta að auki styrkja og niðurgreiðslna umfram það sem hér tíðkast.

Rekstrarár FISK Seafood sem nú er að baki var gott. Framlegðin frá rekstri var um þrír milljarðar króna og munar þar mest um minnkað framboð á villtu sjávarfangi sem leiddi til verðhækkana afurðanna á markaðssvæðum okkar. Við heilsum samt nýju ári í skugga þeirra ákvarðana sem stjórnvöld hafa nýlega tekið um hækkun veiðigjalda, kvótaskerðingar o.fl. Áhrif þess munu óhjákvæmilega lita uppgjör ársins 2026 og nauðsynlegt er að laga sig að þeim breytta veruleika sem bíður okkar. Við höfum farið varlega í stórar fjárfestingar á viðsjárverðum tímum en réðumst samt á nýliðnu ári í miklar endurbætur um borð í Málmey og tókum löngu tímabæran frystiklefa á Háeyrinni í notkun.

Það er líka ánægjulegt að sjá um þessar mundir nýju sjóvarnargarðana, fyrstu skrefin í stækkun hafnarinnar, taka á sig mynd. Vonandi er að stjórnvöld standi í einu og öllu við fyrirliggjandi áform um hafnarframkvæmdirnar sem verða munu mikil lyftistöng fyrir allt atvinnulíf Skagafjarðar. Að lokum nefni ég nýafstaðna sjötíu ára afmælisárshátíð FISK Seafood. Hún verður án efa lengi í minnum höfð og þjappaði einvalaliði starfsmannahópsins okkar vel saman fyrir krefjandi verkefni komandi ára.

Ég óska starfsfólki FISK Seafood, Skagfirðingum og landsmönnum öllum farsæls komandi árs með þökk fyrir allt liðið.

Friðbjörn Ásbjörnsson
framkvæmdastjóri FISK Seafood

- - - - -
Greinin birtist fyrst á heimasíðu FISK Seafood í vikunni.

Fleiri fréttir