Karsten í Sauðárkróksbakaríi kominn í úrslit í keppni um Köku ársins 2022

Konditormeistarinn og bakarinn Karsten Rummelhoff var í viðtali í fermingarblaði Feykis vorið 2016. Þessi mynd var tekin við það tilefni og þetta er því ekki kakan sem komst í úrslitin um Köku ársins 2021 – enda leyndó. MYND: FEYKIR
Konditormeistarinn og bakarinn Karsten Rummelhoff var í viðtali í fermingarblaði Feykis vorið 2016. Þessi mynd var tekin við það tilefni og þetta er því ekki kakan sem komst í úrslitin um Köku ársins 2021 – enda leyndó. MYND: FEYKIR

Forkeppni um Köku ársins 2022 var haldin dagana 21.-22. október sl. en þar gafst bökurum innan Landssambands bakarameistara tækifæri til að senda inn nýjar og spennandi kökur. Sala kökunnar hefst á konudaginn 20. febrúar 2022 og eflaust bíða nú þegar einhverjir spenntir með sínar sætu tennur eftir því að fá smakk. Fjórar kökur urðu hlutskarpastar hjá dómnefnd og fer lokakeppnin fram 19. nóvember.

Karsten Rummelhoff, konditormeistari og bakari hjá Sauðárkróksbakaríi, er einn snillinganna sem bakaði sig í úrslit keppninnar í ár og ekki í fyrsta skipti að sögn Róberts Óttarssonar bakarameistara. Þetta mun þó vera í fyrsta skipti í talsverðan tíma sem Karsten sendir köku í keppnina. Auk Karstens á Rúnar Felixson úr Mosfellsbakaríi tvær kökur í úrslitum og þá á Guðrún Erla Guðjónsdóttir fjórðu kökuna.

Á hverju ári leitar Landssamband bakarameistara að stuðningsaðila fyrir Köku ársins og að þessu sinni er það Innbak sem er aðalstuðningsaðili keppninnar og því er gert að skilyrði að kakan innihaldi Créme Brulée frá Debic.

Dómnefnin í forkeppninni er skipuð þremur sérfræðingum á sviði baksturs og kökugerðar og getur dómnefndin ákveðið að fleiri en þrjár kökur komist áfram í lokakeppni og sú varð raunin í þetta skiptið. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir