Erfitt að verðmeta verk Sölva Helgasonar
Engin tilboð bárust í litla blómamynd eftir Sölva Helgason sem boðin var upp hjá Gallerý Fold á mánudagskvöldið. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Tryggva Páli Friðrikssyni, uppboðshaldara, að erfitt sé að verðmeta verk Sölva þar sem hann var mikill jaðarlistamaður og lítið sé til eftir hann. Verðmat myndarinnar var þó um 5-700 þúsund krónur.
Sem kunnugt er var Sölvi Helgason, eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig, fæddur og uppalinn í Skagafirði. Hann fæddist 16. ágúst 1820 en lést 27. nóvember 1895. Sölvi var flakkari, listamaður og heimspekingur. Ungur missti hann foreldra sína og var vistaður á ýmsum bæjum í Skagafirði og víðar en fór síðan að flakka um landið. Var hann nokkrum sinnum dæmdur fyrir flakk, fölsun á reisupassa (vegabréfi) og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og dvaldi þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Auk mynda er til þó nokkuð af handritum eftir Sölva.