Erilsöm nótt hjá Skagfirðingasveit

Nóttin var erilsöm hjá Björgunarsveitinni Skagfirðingasveit á Sauðárkróki í illviðrinu sem gekk yfir landið í nótt en mesti erillinn var frá laust fyrir miðnætti til um kl. 4. 

Fyrsta útkall á Sauðárkróki barst rétt fyrir miðnætti þegar trampólín fauk á Fornósi og braut glugga. Björgunarsveitarmenn lögðu íbúa hússins lið við að birgja fyrir gluggann.

Foktjón varð einnig þegar mót af plastbát fauk á bifreið á Sæmundargötu og braut rúður í bílnum. Þá fauk þak af bílskúr á Skagfirðingabraut og fóru ruslatunnur og ýmsir aðrir lausamunir af stað.

Ýmisir lausamunir fóru af stað í illviðrinu í nótt. Ljósm./BÞ Ýmisir lausamunir fóru af stað í illviðrinu í nótt. Ljósm./BÞ

Engin útköll urðu hjá Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð þrátt fyrir veðurofsann né hjá Björgunarsveitinni Gretti á Hofsósi. Björgunarsveitarmenn í Gretti fóru í fyrirbyggjandi aðgerð og keyrðu um Hofsós og bundu niður þar sem varð á vegi þeirra.

Lögreglan á Sauðárkróki telur að það hafi hjálpað hve vel var búið að vara við veðrinu og að flestir hafi verið búnir að gera ráðstafanir og bundið niður lausamuni.

Samkvæmt mælingum á vef Veðurstofu Íslands fóru hviður mest uppí 47 m/sek á Stafá í Fljótum, frá kl. 1:00- 4:00. Á Skagatá fóru hviður upp í 44 m/sek kl. 2:00, í Nautabúi í Skagafirði fóru þær upp í 41 m/sek kl. 23:00 og á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki í 34 m/sek,.

Fleiri fréttir