Esther Ágústsdóttir skólastjóri Bataskólans

Þorsteinn Guðmundsson og Esther Ágústdóttir, skólastjórar Bataskólans ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, Hrannari Jónssyni, formanni Geðhjálpar, og Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Mynd/Fésbókarsíða Geðhjálpar.
Þorsteinn Guðmundsson og Esther Ágústdóttir, skólastjórar Bataskólans ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, Hrannari Jónssyni, formanni Geðhjálpar, og Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Mynd/Fésbókarsíða Geðhjálpar.

Skagfirðingurinn, Esther Ágústsdóttir frá Kringlumýri, er annar tveggja skólastjórnenda Bataskóla Íslands sem opnaði við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær. Við hlið hennar starfar Þorsteinn Guðmundsson leikari og grínisti sem nú leggur stund á sálfræði við HÍ. Bataskólinn er samstarfsverkefni Geðhjálpar, Reykjavíkurborgar, HR, HÍ og Landspítalans.

Markmið skólans er að veita fólki með geðrænar áskoranir aukna innsýn inn í einkenni sín, auka lífsgæði þess og þátttöku í samfélaginu. Á fésbókarsíðu Geðhjálpar segir að Bretar séu frumkvöðlar á sviði bataskóla og hafa stofnað 33 bataskóla þar í landi á síðustu fimm árum. Samhliða hafa þeir breitt út hugmyndafræði bataskóla til hátt í 40 annarra Evrópulanda og Japan á allra síðustu árum.

Geðhjálp átti frumkvæðið að því að íslenskur hópur á vegum samráðshóps úrræða/félaga á geðheilbrigðissviðinu kynnti sér hugmyndafræði bataskóla í London og Nottingham. Í framhaldi af því leituðu samtökin eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um þróunar skólans. Borgarráð hefur samþykkt að leggja árlega 15 milljónir króna og frítt húsnæði til þróunar bataskóla á Íslandi á næstu þremur árum. Þá hefur velferðarráðuneytið styrkt skólann um tvær milljónir króna.

Í samtali við Feyki segist Esther, aðspurð um hennar aðkomu að skólanum, hafa verið svo heppin að hafa fengið að fylgjast með undirbúningnum og var hún hvött til að sækja um skólastjórastöðuna. Sjálf veiktist hún árið 2007 og þekkir þennan málaflokk á eigi skinni.

Esther er grunn- og framhaldsskólakennari að mennt og leggur stund á meistaranám í fullorðinsfræðslu með starfi sínu við bataskólann. Hún segir að næstu skref skólans séu að undirbúa námskeið, ráða fólk til starfa ásamt því að kynna skólann og gera hann sýnilegan. „Við höfum mikinn áhuga á því að fara út á land með með skólann þegar fram líða stundir. Þar er það mitt landsbyggðahjarta sem ræður,“ segir Esther.

Fleiri fréttir