Ómar Bragi sæmdur gullmerki UMFÍ
Þau Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur, og Ómar Bragi Stefánsson voru sæmd Gullmerki UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í gær. Ómar Bragi hlýtur Gullmerkið fyrir sjálfboðaliðastarf sitt fyrir knattspyrnudeild Tindastóls á Sauðárkróki.
Á vef UMFÍ segir að Ómar Bragi Stefánsson hefur um 20 ára skeið stýrt mótum UMFÍ, Unglingalandsmóti UMFÍ og Landsmótum UMFÍ 50+ ásamt öðru. Hann var kjörinn í stjórn Tindastóls árið 1974 þegar hann var 16 ára gamall. Leiðir Ómars og félagsins hafa legið saman upp frá því og hefur hann sagt knattspyrnudeild Tindastóls vera sem sitt fjórða barn.Vegur Ómars óx innan Tindastóls í áranna rás enda sat hann svo til samfleytt í stjórninni frá 1974 til ársins 2017, eða í 43 ár. Þar af var hann formaður í 30 ár. Ómar hlaut starfsmerki UMFÍ árið 1998 fyrir störf sín í þágu Tindastóls.