Etix Group eignast ráðandi hlut í Borealis Data Center

Gagnaverið á Blönduósi. Mynd:FE
Gagnaverið á Blönduósi. Mynd:FE

Vísir.is greindi frá því á dögunum að lúxemborgska hýsingar- og gagnavinnsluþjónustan Etix Group hefur fjárfest í Borealis Data Center sem rekur tvö gagnaver á Íslandi, annað á Blönduósi og hitt á Fitjum í Njarðvík. Þar með er Etix komið með ráðandi hlut í Borealis Data Center, eða um 55%, og hefur fyrirtækið nú formlega skipt um nafn og heitir framvegis Etix Everywhere Borealis.

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, staðfestir þetta í samtali við viðskiptablað Fréttablaðsins, Markaðinn, á miðvikudag. 

„Etix er að koma inn sem ráðandi hluthafi hjá okkur. Þetta er alþjóðlegt fyrirtæki með rekstur úti um allan heim sem mun styrkja uppbyggingu hér heima verulega,“ segir Björn. „Við erum á kafi í uppbygginu með þeim sem er smátt og smátt að taka á sig góða mynd,“ segir Björn.

Gagnaverið á Blönduósi var gangsett nýlega og er áætlað að uppbyggingu á aðstöðunni ljúki fyrir árslok. Gagnaverin tvö hafa hýsingargetu fyrir 30 þúsund netþjóna og er öll hýsingin uppseld vegna mikillar eftirspurnar frá alþjóðlegum fyrirtækjum. Björn segir í samtalinu við Markaðinn að Ísland sé hagkvæm staðsetning fyrir gagnaver af þessum toga sem þakka megi köldu loftslagi og raforkuöryggi og vísar hann því til stuðnings til niðurstaðna úr alþjóðlegum rannsóknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir