Eurovision-fögnuður í Fljótum þegar grænt ljós var gefið á göngur og réttir

Númi Jónsson, fyrrun bóndi á Þrasastöðum, lítur yfir safnið. MYND: HALLDÓR GUNNAR
Númi Jónsson, fyrrun bóndi á Þrasastöðum, lítur yfir safnið. MYND: HALLDÓR GUNNAR

Segja má að fyrirkomulag gangna og rétta í Fljótum hafi verið með öðrum brag þetta árið vegna Covid-smita sem komu upp í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi en þangað sækja grunnskólanemendur í Fljótum nám,“ segir Halldór Gunnar Hálfdansson, bóndi á Molastöðum í Fljótum, þegar Feykir innti hann eftir fréttum af göngum og réttum.

Hann segir að nemendur hafi verið í sóttkví vikuna fyrir gangnahelgina og fóru þeir í skimun rétt fyrir helgi en ef smit hefði greinst hefði þurft að aflýsa göngum þá helgi. „Það hefði orðið snúið því sumir bæir áttu að senda lömb í sláturhús strax eftir göngur auk þess sem allt það fólk sem drífur að og hjálpar Fljótafólki að smala var búið að taka þessa helgi frá og jafnvel fá frí í vinnu til að geta aðstoðað bændur á utanverðum Tröllaskaga,“ segir Halldór.

Var þetta fólk beðið um að fresta för sinni til Fljóta þar til niðurstöður skimunar væru ljósar og var það spennuþrunginn tími. Jafnvel kom til greina að snúa fólkinu við á miðri leið ef smit hefði greinst. „Þeir allra hörðustu tóku sénsinn og lögðu fyrr af stað, vitandi að sá möguleiki væri til staðar að það væri til einskis. Þegar í ljós kom að ekkert smit væri í Fljótum brast á mikill fögnuður sem minnti á víðfræg Eurovision partí Fljótafólks.“ Göngur og réttir gátu því farið fram með eðlilegum hætti og ætla má að nærri 100 manns hafi komið komið og aðstoðað bændur í Fljótum þetta haustið.

Halldór segir að á réttardeginum hafi starfsmenn hótelsins á Deplum grillað, með hótelstjórann fremstan í flokki, hamborgara fyrir réttargesti og var það kærkomið fyrir smalana nýkomna úr fjöllunum. „Að lokum langar alla bændur í Fljótum að þakka öllu því fólki sem lagði mikið á sig til að hjálpa okkur að smala og rétta um síðustu helgi og var einkennilega hljótt á bæjunum þegar glaumurinn hljóðnaði og gestirnir hurfu til síns heima eftir skemmtilega helgi,“ segir Halldór að lokum.

- - - - -

Halldór Gunnar tók litmyndirnar sem hér fylgja en Anna María Þórðardóttir tók hins vegar þessar stórfínu myndir í sauðalitunum.

Innimyndin er frá fjárhúsapartíi á Molastöðum, hundurinn í hlíðinni virðir fyrir sér Héðinsfjörð en í forgrunni er burkni. „Alltaf gaman að sjá skrautjurtir vaxa villtar á Tröllaskaganum,“ segir Halldór. Síðan er mynd af gangnamönnum í Hólafjalli safnast saman á Knappsstöðum. Þá er Númi að virða fyrir sér safnið og loks er horft inn í Stíflu á myndinni með ljósbrotinu. Myndirnar frá Önnu Maríu voru teknar í Holtsrétt í Austur-Fljótum um liðna helgi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir