Eyrún Ýr og Hrannar Íslandsmeistarar í fimmgangi

Eyrún Ýr og Hrannar Íslandsmeistarar. Mynd: Eiðfaxi
Eyrún Ýr og Hrannar Íslandsmeistarar. Mynd: Eiðfaxi

Eyrún Ýr Pálsdóttir og Hrannar frá Flugumýri urðu Íslandsmeistarar í fimmgangi meistara á Íslandsmótinu í hestaíþróttum sem fram fór á Hólum í Hjaltadal um helgina. Gísli Guðjónsson, ritstjóri Eiðfaxa, tók viðtal við Eyrúnu að loknum úrslitum og sagði að Skagafjörðurinn færi henni vel og hún honum.

Þau sigruðu úrslitin í gær, 4. júlí, en þá voru akkúrat liðin fimm ár frá því að þau sigruðu A-flokk á sama velli á Landsmótinu á Hólum 2016, það má því segja að þeim líður best á heimavelli en þau eru bæði fædd og uppalinn á Flugumýri í Blönduhlíð.
„Hann er bara besti hestur allra tíma,“ sagði Eyrún.

Hrannar og Eyrún hafa átt góðu gengi að fagna undanfarin ár en þau urðu m.a. íslandsmeistarar í sömu grein árið 2015. Eyrún var spurð að því hvort þau stefni á að halda áfram að keppa saman.
„Já bara meðan hann er í lagi, þá held ég bara að við höldum áfram. Hann er náttúrulega orðinn 15. vetra en hann er fullkomlega heilbrigður. Hann verður allavegana þjálfaður áfram, ég held að þeir endist betur ef maður þjálfar þá og hugsar vel um þá heldur en að bara leggja þeim einhversstaðar.“


Hvernig ætlar þú að fagna sigrinum?

„Ég veit það ekki, bara kannski fá mér eitthvað gott að borða í kvöld,“ sagði Eyrún Ýr kát að lokum.

 

 /SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir