Fækkun starfa einna mest hjá FNV

Fækkun starfa hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er einna mest hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra ef fjárlög ársins 2015 verða samþykkt óbreytt, alls sex talsins. Þetta kemur fram í svari Illugi Gunnarssonar ráðherra sl. mánudag við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar um fjölda starfa innan ráðuneytisins. Stöðugildi kennara við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra eru 36,7 þannig að fækkun kennslustarfa við skólann er 16,3%, samkvæmt upplýsingum frá FNV, og því er ljóst að staða skólans er mjög alvarleg.

Í svari ráðherra kemur fram að störfum geti fækkað um allt að 53 ársstörf og mátti sjá skiptingu eftir stofnunum sem heyra undir ráðuneytið sundurliðaða í töflu. Mesta fækkunin var hjá Þjóðleikhúsinu þar sem fækkað verður um tíu störf, næst hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Háskólanum á Akureyri, hvor tveggja um átta störf, svo kom Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra um sex störf. Þar á eftir var Listaháskóli Íslands með fjögur störf en aðrar stofnanir voru á bilinu 0-2, flestar með 0, þar má meðal Háskólinn á Hólum.

Ekki er fyrirsjáanlegt að fjárlög fyrir árið 2015 muni hafa áhrif á fjölda starfa hjá ráðuneytinu umfram það sem þegar hefur orðið. Tekið er fram að við vinnslu svarsins að rekstraráætlanir stofnana lágu ekki fyrir í öllum tilfellum og því getur gætt nokkurrar óvissu í svörum einstakra stofnana.

Fleiri fréttir