Fasteignaskattar og fráveitugjöld

Ágætur félagi okkar og varamaður áheyrnarfulltrúa Byggðalistans í umhverfis- og samgöngunefnd skrifar grein í Feyki í síðustu viku þar sem hann setur út á að lækkun fráveitugjalda í Skagafirði um sl. áramót leiði ekki til lækkunar fasteignagjalda almennt í Skagafirði. Þessu er því til að svara að fráveitugjald er reiknað út sem ákveðið hlutfall af fasteignamati húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna. Gildir þetta þar sem fráveita er til staðar, þ.e. í þéttbýli í Skagafirði og er því gjaldi ætlað að standa straum af kostnaði fráveitunnar.

Fráveitugjaldið var hækkað árið 2001 úr 0,18% í 0,20% til að safna upp í sjóð fyrir framkvæmdum sem ljóst þótti að ráðast yrði í til að uppfylla kröfur laga og reglugerða í náinni framtíð. Gjaldið var aftur hækkað árið 2002 í 0,25% og enn árið 2004 upp í það hlutfall sem gilti til loka síðasta árs eða 0,275. Í lok árs 2017 var eigið fé fráveitunnar komið í yfir 500 m.kr. Í því ljósi var ákveðið að lækka gjaldið aftur frá og með síðustu áramótum niður í 0,186%. Taka ber aftur fram að þetta er gjald sem einungis er tekið af þeim íbúum húsa sem eru tengdir fráveitu.

Í dreifbýli Skagafjarðar, þar sem ekki er fráveita, er fyrirkomulagið annað. Þar eru rotþrær tengdar húsum og gjald rukkað fyrir tæmingu þeirra eftir að hún hefur farið fram. Rotþrær eru tæmdar á þriggja ára fresti í Skagafirði. Fer tæmingin fram seinnipart sumars og fram undir haust. Til loka árs 2013 var, auk tæmingargjalds, einnig innheimt sérstakt árgjald ár hvert en það var fellt niður árið 2014.

Með hvorri gjaldtöku fyrir sig, annars vegar fyrir fráveituna og hins vegar fyrir tæmingu rotþróa, er þannig leitast við að láta hana endurspegla kostnað við rekstur hvorrar þjónustu fyrir sig.

Fasteignaskattar í Skagafirði
Fasteignaskatturinn sjálfur er hins vegar ákveðið hlutfall af heildarfasteignamati og gildir sama prósenta í öllu sveitarfélaginu fyrir sambærilegar eignir. Er fasteignamatið reiknað út af Þjóðskrá Íslands ár hvert og byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum, auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á aðferðafræði fasteignamats fyrir allar tegundir eigna til að endurspegla betur markaðsverð fasteigna á hverjum tíma en unnt var með eldri aðferðum.

Fasteignamatið getur verið mjög ólíkt á milli svæða í Skagafirði. Þannig má taka sem dæmi að munur á álagningu fasteignaskatts fyrir ríflega 100 fm hús getur verið meira en tvöfaldur og samsvarað tugum þúsunda, allt eftir því hvar húsið er staðsett í héraðinu. Krónutalan er hæst á Sauðárkróki en er talsvert lægri annars staðar.

Álagning fasteignaskatta endurspeglar því markaðsvirði fasteigna á hverju svæði fyrir sig í Skagafirði og hækkun krónutölu þýðir einfaldlega að ætlað virði þeirra er að hækka. Er það þróun sem helgast m.a. af þeirri ánægjulegu staðreynd að á liðnum misserum hefur talsvert verið byggt af íbúðarhúsnæði í bæði þéttbýli og dreifbýli héraðsins og virkur fasteignamarkaður verið með eldra húsnæði og jarðir í Skagafirði.

Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar
Guðlaugur Skúlason, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir