Myndir frá réttarstörfum og smalamennsku í Húnaþingi
Það styttist óðfluga í fyrsta vetrardag en við getum nú varla verið annað en þakklát fyrir að mestu yndælt sumarveður sem oftar en ekki var bæði stillt og milt. Ef veðurspár næstu daga eru skoðaðar er ekki annað að sjá en að sæmilega milt veður sé í kortunum og skríður jafnvel yfir tíu gráðurnar um helgiina. Smalamennsku er að mestu lokið og almenn réttarstörf en Feykir falaðist eftir myndum hjá Eydísi Ósk sem myndaði af lipurð smalamennsku og réttarstörf á Vatnsnesinu.
Hér má því sjá myndir frá Hamarsrétt, göngum í Vatnsnesfjall og nokkrar myndir að auki sem tengjast Viðidalstungurétt.
Svo við komum aðeins inn á veðurspána aftur þá eru spárnar nokkuð rokkandi þegar kemur að hitatölunum. Veðurstofan íslenska spáir til dæmis hægu veðri á laugardaginn, um átta stiga hita en sama dag reiknar Blika með allt að 12 stiga hita upp úr hádegi. Gera má ráð fyrir enn hlýrra veðri sunnudag og mánudag. Það má aftur á móti reikna með að það skiptist á skin og skúrir næstu dagana.