Félag foreldra langveikra barna og barna með ADHD/ADD í Skagafirði stofnað
Félag foreldra langveikra barna og barna með ADHD/ADD í Skagafirði var formlega stofnað, mánudagskvöldið 6. september s.l. í Húsi Frítímans á Sauðárkróki. Sérstakir gestir voru Ingibjörg Karlsdóttir formaður ADHD samtakanna og Ragna Marinósdóttir framkvæmdastjóri Umhyggju.
Á vefsíðu Svf. Skagafjarðar segir að það sé mikið gleðiefni að nú sé orðinn til vettvangur fyrir frekara foreldrasamstarf þessa hóps en allir foreldrar eiga það sameiginlegt að vilja að börnum þeirra líði vel.
Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir aðstandendur langveiks barns eða barns með ADHD/ADD geta sótt um aðild að félaginu. Almennir félagsfundir verða haldnir mánaðarlega, fyrsta mánudag hvers mánaðar og útlit fyrir spennandi dagskrá þar sem fróðleikur og skemmtun verður í bland.
Með stofnun þessa félags er einu af markmiðum Fléttunnar náð, en Fléttan er verkefni til að efla þjónustu við langveik börn og börn með ADHD/ADD og styrkt af félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Markmið hins nýstofnaða félags eru:
- - að vera samstarfsvettvangur foreldra
- - að gæta hagsmuna langveikra barna og barna með ADHD/ADD og fjalla um mál sem snerta almenna/opinbera þjónustu þeirra, t.d. skóla-, frítíma- og félagsþjónustu.
- - að miðla upplýsingum og standa fyrir fræðslu um hina ýmsu sjúkdóma eða raskanir og stuðla að opinberri umræðu.
- - að hafa samstarf við opinbera aðila í Skagafirði um velferð langveikra barna og barna með ADHD/ADD
- - að gefa þessum fjölskyldum tækifæri til að hittast og eiga góðar stundir saman.
Nýkjörinn formaður félags foreldra langveikra barna og barna með ADHD/ADD er Kristján Örn Kristjánsson, ritari er Sigríður Sóley Guðnadóttir og Ólöf Arna Pétursdóttir er gjaldkeri. Varamenn í stjórn eru Eva Óskarsdóttir og Ólafur Smári Sævarsson. Áhugasamir foreldrar eða aðrir aðstandendur eru hvattir til að bætast í hópinn. Þeir geta sett sig í samband við einhvern ofannefndan eða Hönnu Dóru, starfsmann Fléttunnar í síma 455-6000 eða hannadora@skagafjordur.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.