Ferðamáladeild Hólaskóla hlýtur styrk
Í úthlutun úr starfsmenntasjóði félags- og tryggingaráðuneytisins fyrir árið 2010, hlaut Ferðamáladeild Hólaskóla styrk upp á 2.000.000 til ritunar og útgáfu handbókar um afþreyingu á sjó og vatni. Slík afþreying er vaxandi, bæði á vegum áhugahópa og ferðaþjónustufyrirtækja hérlendis. Er því talin mikil þörf fyrir fræðsluefni á þessu sviði.
Fram hefur komið eindregin ósk frá Samtökum ferðaþjónustunnar um að ráðist verði í gerð fræðsluefnis fyrir þá sem bjóða afþreyingu á sjó og vatni fyrir ferðamenn. Verður verkefnið unnið í nánu samstarfi við samtökin og aðra þá sem að greininni koma. Verkefnisstjóri er Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Ferðamáladeild Hólaskóla en hún hefur áður ritað handbók fyrir rekstraraðila og starfsmenn í hestaleigum og hestaferðafyrirtækjum og er hin fyrirhugaða handbók framhald af þeirri vinnu. Áætlað er að verkefninu ljúki síðla árs 2011.
Á vef Starfsmenntaráðs (www.starfsmenntarad.is) kemur fram að til úthlutunar voru um 55 milljónir en samtals var sótt um styrki upp á rúmlega 159 milljónir. Fengu 29 aðilar úthlutað styrkjum að þessu sinni en hámarksupphæð einstakra styrkja var 2 milljónir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.