Ferðaþjónustan á Hveravöllum til sölu
Hveravallafélagið ehf. hefur sett starfsemi sína á Hveravöllum á söluskrá og eru allar fasteignir, tækjabúnaður, innviðir og lóðarleigusamningur til reksturs ferðaþjónustu á Hveravöllum í pakkanum. Hveravallafélagið hefur starfað áratugum saman á Hveravöllum en síðustu árin hefur félagið varið um 100 milljónum króna í endurbætur húsa og búnaðar ásamt uppbyggingu innviða á borð við vatnsveitu og fráveitu í samstarfi við Umhverfisstofnun og fleiri aðila.
Í tilkynningu til fjölmiðla segir að ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line sé stærsti eigandi Hveravallafélagsins en aðrir hluthafar eru Húnavatnshreppur og Björn Þór Kristjánsson. Sveitarfélagið hefur óskað eftir því að fara út úr ferðaþjónusturekstrinum og eigendur Gray Line hafa ákveðið að einbeita kröftum sínum að rekstri eigin félags samhliða uppbyggingu ferðaþjónustu við Skíðaskálann í Hveradölum.
„Ferðaþjónustan á Hveravöllum skapar mikil tækifæri en er um leið krefjandi og kallar á óskipta athygli rekstraraðila. Framundan eru miklir möguleikar í uppbyggingu og vöruþróun á svæðinu. Við teljum því mikilvægt að starfsemin komist í hendur aðila sem geta sinnt henni nú og til framtíðar. Með því að láta Hveravallafélagið af hendi getum við betur einbeitt okkur að uppbyggingaráformum í Hveradölum,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Hveravallafélagsins.
Ferðaþjónustan á Hveravöllum er opin allan ársins hring og þar gista um 10 þúsund manns árlega í skálum, tjöldum og húsbílum. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu komu um 80 þúsund manns til Hveravalla árið 2016.
Fjölgun ferðamanna kallar á bætta aðstöðu á Hveravöllum og liggur fyrir tillaga að byggingu nýrrar hálendismiðstöðvar í samræmi við landsskipulag. Bygging hálendismiðstöðvarinnar er fyrirhuguð utan friðlýsta hverasvæðisins til að stuðla að vernd þess og sjálfbærri þróun.
Ásett verð er 200 milljónir og annast Fasteignasala Mosfellsbæjar söluna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.