Fimmtán flóttamenn komnir til Blönduóss

Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson

Í gærkvöldi komu fimmtán sýrlenskir flóttamenn til Blönduóss þar sem stuðningsfjölskyldur þeirra biðu hópsins og buðu fólkið velkomið. Rætt er við Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum, á fréttavefnum vísir.is í dag en hún var tekin tali þar sem hún var á leið út á Keflavíkurflugvöll í gærkvöldi til að taka á móti hópnum ásamt Valdimar O. Hermannssyni, bæjarstjóri Blönduósbæjar, Þórunni Ólafsdóttur sem ráðin var sem verkefnastjóri Blönduósbæjar vegna komu flóttamannanna og Kinan Kadoni, túlki og menningarmiðlara.

Guðrún segir í að í nógu hafi verið að snúast undanfarið vegna komu fólksins til Blönduóss og Hvammstanga. „Við erum búin að standsetja níu íbúðir, fjórar á Blönduósi og fimm á Hvammstanga, þannig að það er búið að vera nóg að gera.“ Hún segir að sveitarfélögin leggi til íbúðirnar en vinnan við að standsetja þær hafi mikið lent á sjálfboðaliðum Rauða krossins fyrir norðan og hafi þetta verið heilmikil vinna fyrir þá.

Á mánudaginn stendur til að halda matarveislu á Blönduósi fyrir flóttafólkið, sjálfboðaliðana og bæjarbúa, að sögn Guðrúnar. „Bærinn sér um veisluna og fékk sýrlenskan kokk til að sjá um hana. Nú er föstumánuðurinn ramadan hjá aröbunum og hún er þeim svo þýðingarmikil, þeir eru vanir að vera með fjölskyldunni sinni þá. Þetta er eins og fyrir okkur að mæta einhvers staðar á aðfangadagskvöld. Rauði krossinn útbjó gjafakörfur til að gefa fjölskyldunum, með alls konar mat sem fólkið kannast við og er úr arabísku búðunum, Istanbúl Market og Jerusalem Market.“

Hægt er að lesa viðtalið við Guðrúnu í heild sinni í Fréttablaðinu í dag og á vísir.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir