Fimmtugasta íbúð Búhölda afhent nýjum eigendum

Við afhendingu 50. íbúðarinnar í gær. Frá vinstri eru Helgi Þorleifsson smiður, Stefán Steingrímsson varastjórn, Þórður Eyjólfsson fráfarandi formaður, Búhölda, Fjólmundur Fjólmundsson varastjórn, Ragnar Guðmundsson varastjórn, Hulda Gísladóttir og Halldór Hjálmarsson íbúðareigendur og Gunnar Steingrímsson nýr formaður Búhölda. Mynd: PF
Við afhendingu 50. íbúðarinnar í gær. Frá vinstri eru Helgi Þorleifsson smiður, Stefán Steingrímsson varastjórn, Þórður Eyjólfsson fráfarandi formaður, Búhölda, Fjólmundur Fjólmundsson varastjórn, Ragnar Guðmundsson varastjórn, Hulda Gísladóttir og Halldór Hjálmarsson íbúðareigendur og Gunnar Steingrímsson nýr formaður Búhölda. Mynd: PF

Í gær var fimmtugasta og jafnframt síðasta íbúðin afhent nýjum eigendum sem Búhöldar, félag um byggingu húsa fyrir eldri borgara á Sauðárkróki, var með í smíðum. Þá hafa risið alls 25 parhús á þess vegum á 18 árum en fyrsta íbúðin var afhent árið 2000.

Sex íbúðir eru við Iðutún og eru húsin sett saman úr steypueiningum frá Akranesi.  Þau koma frágengin að utan og með öllum lögnum að innan, hiti í gólfum og því engir ofnar á veggjum.

Hinir nýju eigendur íbúðarinnar sem um ræðir eru þau Hulda Gísladóttir og Halldór Hjálmarsson á Sauðárkróki. Þau voru í sjöunda himni af þessu tilefni og sögðu mikla breytingu til batnaðar. „Það verður mikill munur að losna við stigana,“ sagði Halldór og Hulda skaut inn í: „Já, og hætta að detta í þeim.“

„Það er kominn tími til að stærri fjölskylda fari að nota þessa stóru fasteign,“ sagði Halldór og meinti gamla húsið þeirra sem brátt fer á sölu.“ Aðspurð um af hverju þau hafi ákveðið að fara í þetta kerfi segja þau að vel hafi verið látið að þessu kerfi og ekki síður húsunum sem séu vel smíðuð og frágangur til fyrirmyndar.

Í tilefni dagsins voru nýjum eigendum gefin blóm sem og fráfarandi formanni Búhölda, Þórði Eyjólfssyni, sem hefur verið potturinn og pannan í uppbyggingu húsanna allt frá upphafi.

Ný stjórn Búhölda hefur tekið við og er skipuð þeim Gunnari Steingrímssyni formanni, Maríu Grétu Ólafsdóttur, Guðmundi Tómassyni, Unni Sigurðardóttur og Bergljótu Bjarnadóttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir