Fiskmarkaður Íslands opnaði á Króknum á mánudaginn
Fiskmarkaður Íslands hf. opnaði starfsstöð á Sauðárkróki sl. mánudag til viðbótar við þær átta sem félagið hefur rekið víða um land. Til þessa hefur ekki verið aðgengilegt að selja afla frá Sauðárkróki með endurvigt og verður það stærsta breytingin, að sögn Arons Baldurssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
„Seldur afli með réttari vigt vegna endurvigtar endurspeglar hærra verð,“ segir Aron en hann telur að með tilkomu starfsstöðvarinnar megi ætla að frekari áhugi verði á löndunum og þjónustu í höfninni almennt. Áður fór afli vestur á Skagaströnd, millilenti þar og þaðan keyrt til kaupenda.
Óskar Meldal sölustjóri ásamt nýráðnum útibússtjóra Fiskmarkaðar Íslands á Sauðárkróki, Helga Þór Emilssyni. Mynd: PF.
Á heimasíðu Fiskmarkaðarins kemur fram að meirihluti þess afla sem seldur er hjá Fiskmarkaði Íslands sé af dagróðrabátum og er fiskurinn þá oftast seldur áður en honum er landað. Það tryggir kaupandanum góðan og ferskan fisk. Uppboð fara fram á netinu í uppboðskerfi Reiknistofu fiskmarkaða kl. 13:00 alla virka daga og geta kaupendur því tengst uppboðskerfinu frá tölvum sínum hvar sem er í heiminum.
Húsnæði fiskmarkaðarins á Sauðárkróki er staðsett að Háeyri 6 sem er í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar en það húsnæði keypti sveitarfélagið fyrr í sumar undir starfsemi hafnarinnar. Auk þess að leigja Fiskmarkaði Íslands verður í húsinu verkstæði og skrifstofa Skagafjarðarhafna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.