Fjölbreytt verk lögreglu síðustu vikuna
Lögreglan á Norðurlandi vestra fór í heimsókn á heimavist Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra í síðustu viku. Fíkniefnahundar embættisins, Þoka og Freyja, voru með í för og fóru í nokkur herbergi. Þetta kemur fram á nýrri facebook-síðu lögreglunnar.
„Engin fíkniefni fundust en lögreglan átti samtöl við nokkra einstaklinga undir 18 ára aldri ásamt foreldrum þeirra þar sem farið var yfir skaðsemi fíkniefna og annað í þeim dúr,“ segir á síðunni.
Á síðunni segir einnig frá því þegar loka þurfti helstu heiðum í umdæminu í óveðrinu sl. sunnudag.
„Eins og komið hefur fram þá safnaðist fjöldi manns fyrir í Staðarskála þar sem beðið var eftir að veðrinu slotaði. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að opna Holtavörðuheiðina á sunnudagskvöldið, var komið upp fjöldahjálparstöð og 230 manns var komið í hús í Reykjaskóla. Aðrir ferðalangar komust í hús á Borðeyri, Laugabakka, Hvammstanga, Gauksmýri og Staðarflöt, alls voru þetta um 330 manns. Eitthvað líf var í Reykjaskóla og óskað var eftir því Rauði Krossinn sinnti gæslu um nóttina og gekk það allt upp,“ segir loks á síðunni.