Fjölbreyttara úrval en nokkru sinni fyrr

Námsvísir Farskólans fyrir þessa önn er kominn út og var honum dreift á öll heimili á Norðurlandi vestra í síðustu viku. Að sögn Halldórs Gunnlaugssonar, verkefnastjóra hjá Farskólanum, hefur framboð á námskeiðum aldrei verið fjölbreyttara en nú og er sérstök áhersla lögð á starfstengd námskeið.

Halldór nefnir sem dæmi fimm námskeiða röð sem hentar sérlega vel fyrir eigendur lítilla fyrirtækja eða frumkvöðla, handverksfólk eða aðra sem vilja stofna fyrirtæki. Þá verður boðið upp í ýmis tómstundanámskeið, svo sem eins og bjórnámskeið í samstarfi við Bjórsetrið á Hólum og saumanámskeið í samstarfi við Kidka á Hvammstanga.

Halldór vill hvetja fólk til að skrá sig sem fyrst á þau námskeið sem það hefur áhuga á og minnir á að skráningar eru ekki bindandi. Haft er samband við skráða þátttakendur nokkrum dögum áður en námskeið hefst til að staðfesta skráningar.

Nokkur námskeið eru þegar farin af stað og má þar nefna Grunnmenntaskólann sem er 300 stunda námskeið. Um helgina verður fyrsta bjórnámskeiðið og annað slíkt er framundan, sem og saumanámskeið á Hvammstanga. Í kvöld kl. 18 verður svo kynningarfundur um Dale Carnige námskeið sem haldið verður í byrjun október og eru allir boðnir velkomnir á þann fund.

Fleiri fréttir