Fjöldi gesta og allir til fyrirmyndar á Hofsós heim

Fjölmenni sótti flesta viðburði hátíðarinnar. Hér leiða þær Sólborg Una Pálsdóttir og Guðný Zoëga sögurölt niðri í Stað. Myndir:FE
Fjölmenni sótti flesta viðburði hátíðarinnar. Hér leiða þær Sólborg Una Pálsdóttir og Guðný Zoëga sögurölt niðri í Stað. Myndir:FE

Hofsós heim, bæjarhátíð Hofsósinga, var haldin um helgina í björtu veðri en vindurinn var þó örlítið að flýta sér að margra mati. Þar var margt til skemmtunar, gönguferðir, sýningar, kjötsúpa og kvöldvaka, leikir og listasmiðja, markaðir og margt, margt fleira. 

Vala Kristín Ófeigsdóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar, segir allt hafa farið vel fram. Nefndin vilji koma á framfæri sérstöku þakklæti til gesta sem sóttu Hofsós heim um helgina. „Þeir voru algjörlega til fyrirmyndar - bæði í umgengni og samskiptum. Lögreglan þurfti engin afskipti að hafa af þeim. Við viljum þakka þeim fyrirtækjum sem styrktu hátíðina og gerðu okkur kleift að halda hana. Íbúar á Hofsósi sem bjóða fram aðstoð sína við undirbúning og framkvæmd, skreyta hús og fara í hlutverk gestgjafa þessa helgi eiga einnig bæði þakkir og hrós skilið. Ártúnssystkinum viljum við senda sérstakar þakkir en þau vildu að launin þeirra fyrir sönginn og spilið á kvöldvökunni færu óskert til Minningarsjóðs Rakelar Pálmadóttur. Það var húsfyllir á nánast öllum viðburðum og margt fólk í bænum. Nefndin er afar ánægð með hvernig til tókst og biður fólk um að taka síðustu helgina í júní árið 2020 frá.“            

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir