Fjölmennt fjölskyldufjör í Glaumbæ

Fjölskyldufjör á fallegum degi. Mynd: Ylfa Leifsdóttir.
Fjölskyldufjör á fallegum degi. Mynd: Ylfa Leifsdóttir.

Um sjötíu manns lögðu leið sína í Glaumbæ og skemmtu sér saman í blíðskapar veðri sl. fimmtudag, þann  7. mars, en tilefnið var fjölskyldudagskrá sem Byggðasafn Skagfirðinga stóð fyrir í vetrarfríi grunnskólana í Skagafirði. Ungir sem aldnir tóku þátt fróðlegum og skemmtilegum ratleik um safnasvæðið og boðið var upp á ferðaleg aftur í tímann með hjálp nýjustu tækni í Gilstofunni á meðan áhugasömum gafst færi á að skyggnast inní framtíðina með ævafornri aðferð í gamla bænum. Þá var opið í Áskaffi þar sem hægt var að gæða sér á heitu súkkulaði og pönnukökum og fleira góðgæti á milli atriða.  

Sýndarveruleikasýningin „Menning, tunga og tímagöng til 1918“ sló í gegn en þar gafst safngestum kostur á að skyggnast inn í íslenskan veruleika ársins 1918 með aðstoð 360° sýndarveruleikagleraugna og fræðast á lifandi hátt um samgöngur, verslun og viðskipti, um landbúnað og sjósókn en einnig um torfbæina – sem voru bæði heimili og vinnustaður fólks árið 1918. Sýninguna vann Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta Film og vill safnið koma á framfæri þökkum fyrir lánið. En það var ekki bara litið um öxl á þessum ágæta degi heldur líka horft til framtíðar og boðið uppá völuspá í gamla bænum.

„Það var gaman að sjá hversu vel var tekið í þennan viðburð en við viljum gjarnan gera þetta að reglulegum dagskrárlið í vetrarfríinu. Það var virkilega ánægjulegt að sjá alla eiga saman skemmtilega samverustund og uppgötva margt nýtt og spennandi - eða öllu heldur gamalt og spennandi – á safninu. Við færum öllum bestu þakkir fyrir komuna,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir safnstjóri í samtali við Feyki.   

Myndir: Ylfa Leifsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir