Fjölumdæmisþing Lions á Sauðarkróki - Myndir
Í kvöld lýkur fjölumdæmisþingi Lionshreyfingarinnar á Íslandi, sem að þessu sinni er haldið á Sauðárkróki. Að sögn Sveins Sverrissonar, formanns Lionsklúbbs Sauðárkróks, eru um 200 gestir á þinginu, auk félagsmanna í skagfirsku klúbbunum fjórum.
Þingið hófst með skráningu og afhendingu þinggagna í Bóknámshúsi Fjölbrautaskólans á miðvikudagskvöld. Í gær voru haldnir hinir ýmsu skólar embættismanna og ýmis sameiginleg fræsðla. Þá var farin skrúðganga og fjölumdæmisþing sett. Að því loknu var haldið kynningarkvöld í reiðhöllinni.
Í dag voru haldin umdæmisþing 109-A og 109-B og fjölumdæmisþinginu síðan fram haldið, meðan makar héldu á vit óvissunnar í svokallaða makadagskrá. Í kvöld er svo lokahóf og kvöldverður í íþróttahúsinu.
Lionsklúbbarnir í Skagafirði eru fjórir talsins; Lionsklúbbur Sauðárkróks, Lionsklúbburinn Björk, Lionsklúbburinn Höfði og Lionsklúbbur Skagafjarðar. Þrír klúbbanna eiga stórafmæli á árinu, Björk var stofnuð 1994, Höfði 1974 og Sauðárkróksklúbburinn 1964. Í tilefni afmælanna og þessa 59. fjölumdæmisþings var á dögunum gefið út Lionsblað og því dreift frítt í öll hús í Skagafirði.
.