Fjórða tap Tindastóls í gærkvöldi
ÍR og Tindastóll áttust við í Iceland Express deildinni í gærkvöld í Hellinum í Breiðholti, en hvorugt liðanna hafði náð að vinna leik í fyrstu þremur umferðunum. Það var því ljóst fyrir leikinn að öllu yrði til tjaldað í herbúðum beggja liða til að landa fyrsta sigri tímabilsins. Það fór svo á endanum að ÍR-ingar sigruðu sanngjarnt 97-73.
Fyrsti leikhlutinn var nokkuð sveiflukenndur, en um miðbik hans hafði Tindastóll forystu 9-15. ÍR-ingar náðu að snúa leiknum sér í vil og leiddu við upphaf annars leikhluta 25-20.
Annar leikhlutinn var nokkuð í jafnvægi en hann sigruðu heimamenn 24-22 og leiddu því með sjö stigum í hálfleik 49-42. Það var Stólunum nokkurt áhyggjuefni að þeir Kiki og Helgi Rafn voru báðir komnir með þrjár villur og allur seinni hálfleikur eftir. Nemanja Sovic var stigahæstur ÍR í fyrri hálfleik með 15 stig og Kelly Biedler hafði sett 13. Hjá Tindastóli var Kiki með 13 stig, Josh með 11 og Helgi Rafn með 9 stig og 10 fráköst.
Kiki skoraði fyrstu körfu seinni hálfleiks og gaf hann ágæt fyrirheit fyrir framhaldið í bili að minnsta kosti, því eftir fjórar mínútur var munurinn kominn niður í tvö stig 55-53. ÍR-ingar gáfu þá aðeins í og náðu aftur 6 stiga forystu en um miðjan leikhlutann fékk Nemanja Sovic sína fjórðu villu og það voru ekki góð tíðindi fyrir heimamenn. En áfram hélt barátta, Dimitar minnkaði muninn í þrjú stig 60-57 með þriggja stiga körfu en sjö næstu stig voru ÍR-inga og þeir náðu þægilegri forystu á nýjan leik. Í þriðja leikhluta voru bæði Kiki og Helgi Rafn komnir með fjórar villur, sem var mjög alvarleg staða fyrir Tindastól. Við upphaf síðasta leikhlutans var munurinn 11 stig heimamönnum í vil og ljóst að eitthvað mikið þyrfti að gerast í herbúðum Stólanna, ætluðu þeir ekki að yfirgefa Hellinn sem eina sigurlausa liðið eftir fyrstu fjórar umferðirnar.
ÍR hóf síðasta leikhlutann eins og þeir luku þeim þriðja, með körfu og aðeins eina mínútu inn í leikhlutann varð Helgi Rafn að yfirgefa leikvöllinn þar sem hann hafði fyllt villukvótann sinn. Hafði hann þá skilað 9 stigum og 12 fráköstum. Skömmu síðar fauk Kiki sömu leið og útlitið ekki bjart en hann hafði skorað 17 stig fram að þessu. ÍR-ingar juku forskotið jafnt og þétt út leikhlutann og lokastaðan var 97-73.
Stigahæstur ÍR-inga var Nemanja Sovic með 28 stig, Kelly Biedler skoraði 21 og Ásgeir Hlöðversson 9. Frákastahæstur ÍR-inga var Kelly Biedler með 11 fráköst og þeir Biedler og Ásgeir Hlöðversson sendu hvor um sig fjórar stoðsendingar. Með hæstu framlagseinkun var Kelly Biedler með 33.
Hjá Tindastóli voru þeir Josh og Kiki með 17 stig hvor, Rikki setti 11, Helgi Rafn 9, Dimitar 6, Einar Bjarni og Hreinn 4 hvor, Helgi Freyr 3 og Tobbi 2. Helgi Rafn tók flest fráköst eða 12 og Josh gaf 5 stoðsendingar. Tölfræði leiksins og aðrar upplýsingar um hann má finna á heimasíðu Tindastóls.
/Tindastóll
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.