Flugeldasýningar og áramótabrennur

Áramótin eru framundan með öllum sínum gleðskap, brennum og skoteldum. Feyki telst svo til að flugeldasýningar og brennur í umsjón björgunarsveitanna verði haldnar á sjö stöðum á Norðurlandi vestra að þessu sinni, á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Hólum og á Hofsósi.

Brennur og flugeldasýningar verða á þessum stöðum:

Á Hvammstanga verður kveikt í áramótabrennunni við Höfða kl 21:00 á gamlárskvöld. Þar á eftir verður flugeldasýning í boði fyrirtækja í Húnaþingi-vestra. Það er Björgunarsveitin Húnar sem hefur umsjón með áramótabrennu og flugeldasýningu.

Á Blönduósi verður áramótabrenna og flugeldasýning í umsjón Björgunarfélagsins Blöndu á Efraholti, sunnan Blönduóss. Kveikt verður í brennunni klukkan 20:30 og hefst flugeldasýning skömmu síðar..

Á Skagaströnd verður áramótabrenna við Snorraberg á mótum Vetrarbrautar og Ásvegs. Klukkan 20:30 fer blysför frá Félagsheimilinu Fellsborg að brennunni en kveikt verður í henni klukkan 20:45 og skömmu síðar hefst flugeldasýning sem styrkt hefur verið af fyrirtækjum bæjarins. Brennan og flugeldasýningin eru í umsjón Björgunarsveitarinnar Strandar og Ungmennafélagsins Fram.

Kveikt verður í öllum brennum í Skagafirði klukkan 20:30. Í Varmahlíð sér Flugbjörgunarsveitin um flugeldasýningu og brennu sem verður við afleggjarann upp í Efri-Byggð. Á Sauðárkróki er brennan norðan við hús Vegagerðarinnar og þar er það Skagfirðingasveit sem hefur umsjón með málum, brennan á Hólum verður sunnan við Víðines þar sem Björgunarsveitin Grettir annast flugeldasýningu og á Hofsósi sér Björgunarsveitin Grettir um  flugeldasýningu og brennu á Móhól ofan við þorpið. Á þessum stöðum hefjast flugeldasýningar klukkan 21:00. 

Á Vísindavefnum segir um áramótabrennur: 

„Ekki er vitað til þess að áramótabrennur hafi verið haldnar hér á landi fyrr en á ofanverðri 18. öld. Fyrir þann tíma var timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að honum mætti sóa í slíkt. Allra fyrsta dæmið er frá árinu 1791 þegar skólapiltar úr Hólavallaskóla í Reykjavík söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan (en vulcan er erlent heiti yfir eldfjall). Hæðin sem um ræðir er sennilega Landakotshæð.
Rúmum 50 árum síðar virðast áramótabrennur (og reyndar þrettándabrennur) vera orðnar nokkuð algengar. Ekki voru þær þó mjög hátíðlegar af lýsingu Klemens Jónssonar (f. 1862) að dæma og segir hann þar hafa tíðkast mikið fyllerí og ólæti. Á þessum tíma var líka farið að dansa álfadans kringum brennurnar. Sá siður er ættaður frá piltum í Lærða skólanum sem frumsýndu árið 1871 leikritið Nýársnótt þar sem álfar komu við sögu. Þeir tóku sig svo til á gamlárskvöld, ásamt stúdentum þaðan og frá Kaupmannahöfn, og klæddu sig upp sem ljósálfa eða svartálfa, gengu niður að Tjörninni í Reykjavík með blys í hönd, dönsuðu og sungu álfasöngva." 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir