Flughálka í Húnavatnssýslum og ófært á Öxnadalsheiði

Flughálka er í Húnavatnssýslum og ófært er á Öxnadalsheiði, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Snjóþekja og skafrenningur er á Vatnskarði en þæfingsfærð og snjókoma er frá Sauðárkrók að Hofsósi.  Snjóþekja eða hálka og éljagangur er annars mjög víða á Norðurlandi.

Norðaustan 10-18 m/s og él er á Ströndum og Norðurlandi vestra, hvassast á annesjum. Hiti kringum frostmark. Lægir í innsveitum eftir hádegi og dregur úr úrkomu. Hæg norðaustlæg átt á morgun og stöku él við ströndina, annars bjart með köflum. Frost 0 til 7 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag (jóladagur):

Sunnan 5-10 m/s og dálítil snjókoma á S- og V-landi eftir hádegi. Hægari vindur og bjartviðri NA- og A-lands. Frost 1 til 12 stig, mildast við SV-ströndina.

Á föstudag (annar í jólum):

Breytileg átt 3-8 m/s. Él víða um land, síst þó NA-til. Frost 0 til 7 stig.

Á laugardag:

Norðaustan 8-13 m/s um morguninn og snjókoma NA- og A-lands og með NV-ströndinni, en þurrt í öðrum landshlutum. Lægir, styttir upp og rofar til eftir hádegi. Áfram frost um allt land.

Á sunnudag:

Suðvestan 8-15 m/s. Skýjað og úrkomulítið S- og V-lands, annars léttskýjað. Hlýnandi veður.

Á mánudag:

Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með rigningu, en þurrt að kalla NA-til á landinu. Hiti 4 til 10 stig.

Fleiri fréttir