Flundra veiddist í Miklavatni
Flundra, fiskur af Kolaætt, veiddist í Miklavatni á dögunum en það var Viðar Ágústsson á Bergsstöðum sem veiddi fiskinn í net. Flundran sem Viðar veiddi er 16,5 cm löng en getur orðið allt að 60 cm. Í Norðursjó, dönsku sundunum og í Eystrasalti er hún veidd í net eða gildrur og þá til átu.
-Ég hef aldrei smakkað flundru og er þetta eftir því við best vitum fyrsti fiskur þessara tegundar sem veiðist hér á Norðurlandi en hún hefur verið að ná fótfestu annars staðar við land, segir Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra.
Á heimasíðu Náttúrustofu Norðurlands vestra segir m.a um Flundru: Útbreiðslusvæði flundru nær yfir Norðaustur Atlantshaf frá Hvítahafi og Norður Noregi. Flundrur eru grunnsævis- og botnfiskar og finnast þær niður á 100 metra dýpi. Halda þær sig einkum við árósa í ísöltu vatni og eiga til að flækjast upp í ár og vötn.
Flundra er nýr landnemi hér við land en talið er að landnám hennar tengist hugsanlega hlýnandi veðurfari. Hrogn og smáseiði flundrunar eru sviflæg og er talið að hún hafi borist hingað frá Færeyjum. Fyrstu fiskarnir veiddust í Ölfusá sumarið 1999 og voru taldir flækingar, hrygning við Ísland var hinsvegar staðfest vorið 2001. Árið 2004 náði útbreiðslusvæði hennar frá sunnanverðum Austfjörðum og suður fyrir land allt norður í norðanverðan Breiðafjörð. Sumarið 2005 hafði hún numið land á Ströndum. Landnám hennar við norðurland hefur hins vegar ekki verið staðfest fyrr en nú eftir því sem við á Náttúrustofunni komumst næst.