Flytja ferskt kjöt til Þýskalands

Á heimasíðu SAH Afurða kemur fram að sauðfjárslátrun gengur mjög vel hjá fyrirtækinu. Í lok þessarar viku verður búið að slátra ríflega 40.000 fjár og það sem af er, er meðalfallþungi dilka nokkru meiri en í fyrra eða um 16.4 kg. Eina fimm daga hefur meðalfallþungi farið yfir 17 kg. sem er einstakt í sögu sauðfjárslátrunar á Blönduósi.

Góð tíð auðveldar mjög flutninga og hafa þeir gengið mjög vel. Mikil áhersla er lögð á nýtingu aukaafurða og hefur sú vinnsla aukist mjög frá því sem áður var. Stefnt er að því að næsta haust verði nærfellt allt hirt úr lambinu sem hægt er að hirða, annaðhvort til matar eða til framleiðslu gæludýrafóðurs.

Búið er að ganga frá sölu á flestöllum gærum og horfur í útflutningi dilkakjöts eru ágætar, þótt takmarkaður ESB kvóti takmarki nokkuð hversu mikið hægt er að flytja á evrópska markaði nú til áramóta.

Útflutningur á fersku kjöti til Þýskalands er hafinn að nýju og fara nú sendingar nærfellt vikulega, sem enda á borðum þýskra matgæðinga, en kjötið fer fyrst og fremst til veitingahúsa sem leggja mikinn metnað í nýjungar og að hafa góða og áhugaverða matseðla. Vonir standa til að framhald verði á þessum útflutningi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir