FNV áfram í Gettu betur
Lið Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er komið áfram í aðra umferð Gettu betur eftir sigur á Fjölbrautaskóla Suðurnesja í fyrstu umferð. Keppendur FNV hafa æft af kappi síðan í byrjun september og var að vonum mikil spenna fyrir viðureignina enda þreyttu allir keppendur frumraun sína í þessari fyrstu umferð.
Fyrstu tvær umferðir keppninnar fara fram í net- og útvarpi og fara þannig fram að fyrst eru hraðaspurningar í níutíu sekúndur og svo tólf bjölluspurningar. Lið FNV mætti í hljóðver RÚV á Akureyri og var útvarpað suður þar sem spyrill, dómarar og andstæðingar sátu í Efstaleiti í Reykjavík. Eftir hraðaspurningar leiddu FS með 12 stigum gegn 11 stigum FNV sem reyndust síðan hlutskarpari í bjölluspurningunum og fóru með sigur af hólmi 17-12.
Lið FNV skipa þau Daníel Smári Sveinsson, Emma Katrín Helgadóttir og Snædís Katrín Konráðsdóttir.
Einnig hafa þau Ingimar Eyberg Ingólfsson, Lára Sigurðardóttir og Páll Pálmason verið í æfingahóp Gettu betur í vetur og fór hópurinn saman á Akureyri. Eins og við mátti búast var glatt á hjalla í langferðabílnum á leiðinni heim.
Liðið mætir Borgarholtsskóla í annarri umferð þann 21. janúar nk, þetta kemur fram á vef FNV.
