Fór Ísland nokkuð á hliðina? | Hjörtur J. Guðmundsson

Hjörtur J. Guðmundsson.MYND AÐSEND
Hjörtur J. Guðmundsson.MYND AÐSEND

Fyrir rúmum þremur árum tók varanlegur víðtækur fríverzlunarsamningur gildi á milli Íslands og Bretlands í kjölfar þess að Bretar sögðu skilið við Evrópusambandið. Fyrst í stað til bráðabirgða og síðan endanlega frá 1. febrúar 2023 en áður hafði bráðabirgðasamningur verið í gildi frá árinu 2021. Þar með hættu viðskipti og ýmis önnur samskipti á milli Íslands og Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar á eftir Bandaríkjunum, að grundvallast á EES-samningnum.

Með öðrum orðum skiptum við EES-samningnum, sem Bretland var áður aðili að í gegnum veru sína í Evrópusambandinu, út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning án þess að nokkuð færi á hliðina í viðskiptum eða öðrum samskiptum ríkjanna. Þvert á móti hafa viðskiptahagsmunir Íslands í þeim efnum verið tryggðir. Svo vel raunar að meira að segja Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, hefur ekki getað annað en að viðurkenna það ítrekað.

Til að mynda talaði Þorgerður um góða viðskiptasamninga eins og þann sem gerður hefði verið við Bretland í ræðu á Alþingi 12. maí síðastliðinn. Þá sagði hún í grein á Vísir.is í byrjun júní 2021 að tekizt hefði með bráðabirgðasamningnum „að tryggja nákvæmlega sama ástand“ og fyrir hendi var áður. Hitt er annað mál að ekki felst vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum og upptaka íþyngjandi regluverks í fríverzlunarsamningnum eins og á við um EES-samninginn.

Minnst vegna EES-samningsins

Fram kom á vef utanríkisráðuneytisins 20. marz síðastliðinn að íslenzkir útflytjendur hefðu notið minnst 33 milljarða króna ávinnings af tollfríðindum á síðasta ári í gegnum EES-samninginn og fríverzlunarsamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli aðildar Íslands að EFTA samkvæmt úttekt ráðuneytisins, Skattsins og skrifstofu EFTA í Brussel. Þar af mætti rekja 26,6 milljarða til fríðinda vegna EES-samningsins og „tengdra viðskiptasamninga“ við Evrópusambandið.

Tollsparnaður að andvirði 14,6 milljarða króna mætti rekja til útflutnings á áli til Evrópusambandsins og 12 milljarðar vegna útflutnings sjávarafurða til ríkja þess og Bretlands. Samanlagt 26,6 milljarðar. Hins vegar var stærstur hluti þessara tollkjara þegar til staðar fyrir daga EES-samningsins. Komið var þannig á fullt tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur, þar á meðal ál, um 1980 í gegnum fríverzlunarsamning Íslands við forvera sambandsins frá 1972 sem enn er í fullu gildi.

Hið sama átti við um stóran hluta útfluttra sjávarafurða sem enn eru fluttar út á grundvelli fríverzlunarsamningsins í gegnum bókun 9 við EES-samninginn sem kveður á um að það að hafi verið samið um betri viðskiptakjör í öðrum samningum skuli þau gilda. Mögulega má gera ráð fyrir að rekja megi einungis um 4-5 milljarða króna af áðurnefndum 26,6 milljörðum til EES-samningsins. Heyrði samningurinn sögunni til héldust áðurnefnd kjör þannig að langmestu leyti.

Höfum aldrei haft fullt tollfrelsi

Við Íslendingar höfum hins vegar aldrei notið fulls tollfrelsis fyrir sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn. Á sama tíma hefur Evrópusambandið samið um víðtæka fríverzlunarsamninga á undanförnum árum við ríki eins og Kanada, Bretland og Japan þar sem kveðið er á um fullt tollfrelsi og þar með talið og ekki sízt með sjávarafurðir. Hérlend stjórnvöld hafa af þeim sökum árum saman reynt að ná fram sambærilegum kjörum í gegnum EES-samninginn en án árangurs.

Tollar á útfluttar sjávarafurðir til Evrópusambandsins hafa verið hærri eftir því sem þær hafa verið meira unnar og þar með verðmætari. Ástæðan fyrir þessu er að öllum líkindum sú að sjávarútvegur er ekki hluti af EES-samningnum enda vildu hérlend stjórnvöld ekki að regluverk sambandsins gilti um íslenzkan sjávarútveg. Skiljanlega. Kæmi hins vegar til þess að fríverzlunarsamningur yrði gerður í stað EES-samningsins væru slíkar áhyggjur með öllu óþarfar.

Tollar á útfluttar sjávarafurðir til Evrópusambandsins hafa verið um 2,6 milljarðar króna á ári samkvæmt utanríkisráðuneytinu. Án EES-samningsins væri aukinn kostnaður vegna þeirra um 4,2 milljarðar vegna eftirlits og skerts geymsluþols. Með víðtækum fríverzlunarsamningi í stað EES-samningsins væri ávinningurinn af honum samkvæmt því aðeins um 1,6 milljarðar á ári. Með fríverzlunarsamningi væri á móti hægt að flytja út meira unnar og verðmætari vörur.

Mikill og vaxandi tilkostnaður

Við þetta bætist síðan mikill og vaxandi tilkostaður vegna íþyngjandi regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði almenning og atvinnulífið sem hugsað er fyrir milljóna- og tugmilljónaþjóðir sem þó kvarta undan því. Vaxandi gagnrýni hefur heyrzt frá atvinnulífinu hér á landi, bæði fjármála-, iðn-, og verzlunarfyrirtækjum. Nú síðast frá Samtökum verzlunar og þjónustu vegna regluverks um einnota plastvörur sem leiða muni bæði til hærra verðlags og minna vöruúrvals.

Samkvæmt skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur, sem í sátu fulltrúar atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda, frá 2016 kemur mikill meirihuti íþyngjandi regluverks í gegnum EES-samninginn. Fyrir alla gullhúðun. Samningurinn er enn fremur vaxandi hindrun í vegi viðskipta við aðra heimshluta sem miklu fremur eru markaðir til framtíðar. Til að mynda bendir flest til þess að aðildin að honum komi í veg fyrir fríverzlun við Bandaríkin.

Vaxandi framsal valds til Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, bæði óbeint en í vaxandi mæli beint, hefur iðulega verið réttlætt með því að samningurinn skipti okkur gríðarlegu máli efnahagslega. Flest bendir hins vegar til þess að efnahagslegur ávinningur af honum sé margfalt minni en haldið hefur verið fram. Ef einhver í raun þegar allt er tekið með í reikninginn. Vert er að hafa þetta ekki sízt í huga þegar fjallað er um bókun 35 við samninginn.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Fleiri fréttir