Forðast að lenda í bókaskorti

Jóna Guðrún. Mynd úr einkasafni.
Jóna Guðrún. Mynd úr einkasafni.

Viðmælandi Feykis í Bók-haldinu í 35. tbl. árið 2017 heitir Jóna Guðrún Ármannsdóttir, bóndi og húsmóðir í Laxárdal 3 í Hrútafirði í Húnaþingi vestra.  Jóna fæddist á Akureyri á jóladag árið 1973 og ólst upp á Vatnsleysu í Fnjóskadal þar sem hún bjó til 17 ára aldurs þegar hún fór til náms í Bændaskólann á Hvanneyri. Þar kynntist hún manninum sínum, Jóhanni Ragnarssyni úr Laxárdal, en þangað flutti Jóna árið 1995 og búa þau hjónin þar með rúmlega 1000 kindur. Börnin eru fimm og hefur Jóna verið heimavinnandi síðan það yngsta fæddist, árið 2010. Áður starfaði hún um nokkurra ára skeið sem kennari við Grunnskólann á Borðeyri en hún stundaði fjarnám við Kennaraháskólann og lauk því árið 2007. Þrátt fyrir annir við búskapinn og stórt heimili er Jóna afkastamikil við bóklesturinn og við fengum að hnýsast aðeins í hennar lestrarhætti.

Hvers konar bækur lestu helst?

Ég les mest skáldsögur bæði íslenskar og erlendar, mikið af glæpa- og spennusögum.  Ljóðabækur les ég nánast aldrei, fræðibækur sjaldan en það kemur fyrir að ég lít í áhugaverðar ævisögur.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?

Ég las mjög mikið sem barn. Sem dæmi má nefna Ævintýrabækurnar, Húsið á sléttunni, bækurnar um Öddu og Glaumbæinga eftir Guðna Kolbeins, bækurnar hans Ármanns Kr. Einarssonar og  Indriða Úlfssonar.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

Hýbýli vindanna/Lífsins tré fannst mér mjög góð.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?

Yrsa Sigurðardóttir er uppáhalds íslenski höfundurinn, bækurnar hennar eru mjög spennandi. En Dorothy Koomson sá erlendi, bækur hennar eru mjög vel skrifaðar og áhugaverð málefni sem hún tekur fyrir í sínum sögum.  Camilla Läckberg er líka í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

Núna er ég að lesa bók sem heitir  Ósýnilegi maðurinn frá Salem eftir Christoffer Carlsson og bókin Hvít fiðrildi bíður lestrar.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?

Já, ég fer reglulega á bókasafnið á Hvammstanga og fæ lánaðar bækur fyrir mig og fjölskylduna. Ég reyni að fara að minnsta kosti einu sinni í viku til að lenda ekki í bókaskorti.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?

Nei ekki beint. Ég fer þó oftast í Eymundsson. En ég kaupi mér mjög sjaldan bækur, fæ þær frekar lánaðar á bókasafninu.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?

Það eru ca 650 bækur í hillunum hjá mér.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?

Ég kaupi í mesta lagi 1-2 bækur á ári og fæ 1-2 í jólagjöf.

Eru ákveðnir höfundar eða bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?

Einu sinni fékk ég alltaf bækurnar hennar Birgittu Halldórsdóttur og bækurnar hennar Mary Higgins Clark en núorðið eru það bækurnar hennar Yrsu Sigurðardóttur.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?

Mér þykir voða vænt um bók sem heitir Forystufé, móðurafi minn átti hana og gaf okkur hjónum fyrir löngu og bað okkur að fara vel með hana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir