Forsetahjónin á Sæluviku

Forsetahjónin heimsóttu m.a. bændur á Syðra-Skörðugili. Mynd: Forseti.is.
Forsetahjónin heimsóttu m.a. bændur á Syðra-Skörðugili. Mynd: Forseti.is.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og  Eliza Reid sóttu Skagfirðinga heim í tilefni af Sæluviku sem endaði formlega um helgina. Forsetahjónin þáðu hádegisverð í boði sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar á Hótel Tindastóli, sóttu opið hús í Árskóla á Sauðárkróki, skoðuðu myndlistarsýningu í Gúttó og heilsuðu upp á bændur á Syðra-Skörðugili og Syðri-Hofdölum austan Vatna.

Að kvöldi laugardags sóttu forseti og frú Elísa tónleika Karlakórsins Heimis í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð en þar var einnig haldið afmælishóf daginn eftir er Sögufélag Skagfirðinga fagnaði 80 ára afmæli og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga 70 ára afmæli með málþingi. Þar ávarpaði forseti gesti og setti þingið í kjölfarið.

Í ávarpi sínu hrósaði forsetinn Skagfirðingum fyrir dugmikið starf í þágu söguritunar og varðveislu sagna allt frá nítjándu öld og fram á þennan dag. Sagði hann að óvíða væri eins mikil rækt lögð við héraðs- og byggðarsögu og í Skagafirði. „Á stríðsárunum ákváðu Sögufélagsmenn að afrita gögn Þjóðskjalasafnsins um byggðarlagið; kirkjubækur, manntöl og fleira. Sú vinna leiddi ásamt öðru til stofnunar Héraðsskjalasafns Skagfirðinga fyrir sjötíu árum, 23. apríl 1947 og var það fyrsta safnið af því tagi hér á landi,“ sagði Guðni m.a. í ávarpi sínu er hann setti málþing Sögufélags- og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.

Ávarp Guðna Th. Jóhannesarsonar má nálgast HÉR

Fleiri fréttir