Frábær bræðrastemning á taumlausum tónleikum í Miðgarði

Snillingarnir Óskar Péturs Álftagerðisbróðir, Valmar Valjaots Hvanndalsbróðir og Magni Ásgeirs litli bróðir, spiluðu uppáhaldslögin sín og sögðu sögur á milli laga á eldhressum tónleikum í Miðgarði laugardagskvöldið 18. október.

Þeir félagar hófu leik með því að syngja Fyrr var oft í koti kátt en síðan renndu þeir í hvern slagarann af öðrum og nánast frá byrjun voru gestirnir að taka vel undir. Lög eins og Reyndu aftur, Bíddu við, Hamraborgin, Bjössi á mjólkurbílnum, Sem lindin tær og að sjálfsögðu hinn nýji óopinberi þjóðsöngur Íslendinga, Ég er kominn heim, fengu að hljóma.

Allir þekktu Magna og Óskar fyrir tónleikana en Eistinn og Hvanndalsbróðirinn Valmar hitti í mark hjá Skagfirðingum með fínum húmor og sýndi hann fádæma fína takta á nikku, fiðlu og píanó. Sérstaklega hreif hann þó áhorfendur með sér þegar hann greip fiðluna og spilaði Danny Boy af mikilli innlifun.

Þeir þremenningar höfðu orð á því að lítill tími hefði farið í æfingar fyrir tónleikana og því mikið grínast með tóntegundir á milli laga og einn og einn texti skolaðist aðeins til en tónleikarnir voru allir á léttu nótunum (þó farið væri upp á efstu tóna af og til) og varð þetta bara til að auka á stemninguna í Miðgarði. Enda var mikið hlegið, þó að kannski hefðu nú ekki allar sögurnar hans Óskars þótt boðlegar í barnaafmælum.

Það var nýtt fyrirtæki í Skagafirði, Viðburðaríkt, sem stóð fyrir tónleikunum en þar ríkir Áskell Heiðar Ásgeirsson, stóri bróðir Magna og fyrrum sviðsstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Svf. Skagafirði. Heiðar kynnti listamennina og í hléi kynnti hann til sögunnar eystborgfirska skáldið Ásgrím Inga Arngrímsson sem flutti nokkur brosleg ljóð af kæreyleysislegum alvöruþunga.

Góður fjöldi fólks sótti viðburðinn og er óhætt að fullyrða að allir hafi skemmt sér vel og hafi farið sáttir og sælir út í októbernóttina eftir þriggja tíma taumlausa tónleika.

Fleiri fréttir