Frábær endurkoma Tindastóls gefur smá von

Jóhann Daði fagnar síðasta marki leiksins sem hann skoraði. MYND: ÓAB
Jóhann Daði fagnar síðasta marki leiksins sem hann skoraði. MYND: ÓAB

Það var boðið upp á góða skemmtun á Sauðárkróksvelli í gær þegar Tindastóll og Einherji mættust í botnslag 3. deildar. Stólarnir urðu hreinlega að vinna leikinn til að eiga möguleika á að forðast fall í 4. deild en stig hefði tryggt Vopnfirðingum áframhaldandi veru í deildinni. Leikurinn var æsispennandi og sveiflukenndur en endaði með kærkomnum en sjaldgæfum sigri Tindastóls. Lokatölur 4-2.

Það var ágætiveður á Króknum, rigndi nokkuð framan af leik en brast á með sól í síðari hálfleik. Leikurinn var tilþrifalítill framan af en Stólarnir áttu reyndar skalla í þverslá í blábyrjun og nokkrum sinnum þurfti Einar Ísfjörð að vera á stóru tánum í marki Tindastóls þegar gestirnir sköpuðu færi. Addi Ólafs varð að yfirgefa völlinn vegna meiðsla á 43. mínútu en þegar rúm mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma braut Konni fyrirliði ísinn fyrir heimamenn, fékk boltann óvaldaður nokkuð fyrir framan vítateig gestanna og náði algjörri sleggju sem Oskars Dargis í marki Einherja átti ekki séns á að verja.

Vopnfirðingar komu vel stemmdir til leiks í síðari hálfleik og náðu undirtökunum fljótlega. Hver sóknin af annari skall á vörn Tindastóls og þeir uppskáru loks vítastpyrnu á 54. mínútu þegar Cisco og einn gestanna skelltu fótum saman. Alejandro Lechuga skoraði af öryggi úr spyrnunni og fimm mínútum síðar bætti hann öðru marki við þegar hann slapp inn fyrir vörn heimamanna vinstra megin. Dagurinn virtist bara versna hjá Stólunum því skömmu síðar var Konni borinn meiddur af velli og inn fyrir hann kom Arnór. Nú opnaðist leikurinn upp á gátt en heimamenn urðu að leggja allt í sölurnar. Á 75. mínútu náðu Stólarnir ágætri sókn sem endaði með að Pape lagði boltann á Raul Jorda sem reyndi skot sem fór af Helga Má Jónssyni og í markið.

Trúin kom nú aftur í heimamenn og Pape steig vel upp. Hann kom liði Tindastóls yfir á 81. mínútu eftir að hann var skilinn einn eftir á fjærstöng í hornspyrnu og skoraði af öryggi. Við tóku æsimínútur þar sem gestirnir pressuðu en Stólarnir áttu skyndisóknir. Eftir eina slíka komst Arnór aleinn upp vinstri kantinn á 97. mínútu, lék inn á teiginn og í stað þess að reyna sjálfur að skora sendi hann lúxusbolta á Jóhann Daða sem hamraði boltann í galopið mark Einherja og fagnaði síðan eins og enginn væri morgundagurinn. Í miðju fagni flautaði dómarinn leikinn af og sætur sigur í höfn.

Frábær endurkoma Tindastóls og strákarnir eiga heiður skilinn fyrir að láta ekki mótlætið draga sig niður heldur stíga upp og klára leikinn þegar öll sund virtust lokuð. Frábær vinnusemi og dugnaður hjá liðinu í heild en upp úr stóðu þó Fannar, Pape, Domi og Sigurður Pétur en það er gaman að sjá þann strák spila fótbolta.

Í síðustu umferð fara strákarnir út í Eyjar og spila við lið KFS en Einherji mætir Víðismönnum á Vopnafirði. Það er því miður ólíklegt að Stólarnir, sem nú eru með 18 stig í 11. sæti, haldi sæti sínu en lið Einherja er með 19 stig í 10. sæti. ÍH sem er í neðsta sæti á einnig möguleika á að bjarga sér í síðustu umferð en það verður að segjast eins og er að líkurnar eru með liði Einherja. En miði er möguleiki og trúin flytur fjöll – það er bara þannig!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir