Frábær stemning á Húnavöku

Það var stuð í Tívolíinu. MYNDIR: ÓAB
Það var stuð í Tívolíinu. MYNDIR: ÓAB

Húnvetningar unnu stóra pottinn í veðurlottóinu þegar fjölskyldudagskrá Húnavöku fór fram í dag og fallegi Blönduós skartaði sínu fegursta. Enda var fjölmenni á svæðinu við íþróttamiðstöðina þar sem Villi Naglbítur kynnti fjölbreytta dagskrárliði og var með skemmtiatriði. Taylor's Tivoli sló í gegn hjá yngstu kynslóðinni svo eitthvað sé nefnt. Að dagskránni lokinni var fótboltaleikur, sundlaugarpartý og kótilettukvöld og nú í kvöld stjórnaði Magni Ásgeirs brekkusöng og senn hefst stórdansleikur með hljómsveitinni Á móti sól.

Feykir sagði frá því í gær að Veðurstofan hefði ekki gert ráð fyrir mörgum sólargeislum í dag en þeir enduðu fleiri á Blönduósi en ráð var fyrir gert. Fólk var því léttklætt og í léttu skapi í 20 stiga hita og hlýrri golu. Svipað var uppi á teningnum í gær; Leikhópurinn Lotta lék við hvurn sinn fingur fyrir framan fjölmenni og undir bláhimni. Í gærkvöldi voru útitónleikar sem heppnuðust frábærlega en myndir má sjá á Facebook-síðu Húnavökunnar.

Á morgun, sunnudag, verður ýmislegt spennandi í boði og má þar til dæmis nefna sýningu Heimilisiðnaðarsafnsins ÞRÁÐLAG, útsýnisflug, stofutónleika Skagfirska kammerkórsins og froðurennibraut í brekkunni við Blönduóskirkju. Annars má sjá dagskrána á fyrrnefndri FB-síðu Húnavökunnar.

Hér eru nokkrar myndir frá fjölskyldudagskánni í dag sem ljósmyndari Feykis tók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir