Frábært Íslandsmót í Endurocross á Sauðárkróki

Laugardaginn 20. nóvember s.l. fór fram 1. umferðin í endurocrossi í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki og er óhætt að segja að tilþrifin hafi verið mögnuð á skemmtilegri braut.

Þetta var fyrsta keppnin af þremur til Íslandsmeistara og jafnframt í fyrsta sinn sem keppt er í Íslandsmót í Endurocross á Íslandi og var af þeim sökum mikil tilhlökkun í keppendum sem og áhorfendum sem létu sig ekki vanta.

Alls tóku 18 keppendur þátt í æsispennandi keppni og hrósuðu þeir brautinni í hástert. Brautin samanstóð af allskyns hindrunum og voru flestar með góðu flæði, fyrir utan eina en það var gryfja sem var full af fólksbíladekkjum. Var hún torfærð fyrir keppendur sem áttu oft erfitt í henni en uppskar mikla skemmtun hjá áhorfendum.

Haukur Þorsteinsson á Kawasaki KX 450f varð sigurvegari mótsins, Kári Jónsson sem var valinn aksturíþróttamaður ársins 2010 endaði í öðru sæti á TM Racing 250 og Daði Erlingsson á Yamaha 250 kom svo þriðji í mark eftir æsispennandi keppni.

Veitt voru verðlaun fyrir bestu tilþrifin í brautinni og komu þau í hlut heimamannsins  Sigurðar Inga Einarssonar á Kúskerpi en hann skemmti áhorfendum oft á tíðum með skemmtilegum akstri. Sigurður ók á Kawasaki KX 250 2T.

Sjá fleiri myndir HÉR

Fleiri fréttir