Frábært tækifæri til að taka upp þráðinn

Í nóvember mun Farskólinn-miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra bjóða upp á námstækifæri sem kallast Nám og þjálfun í bóklegum greinum í áttunda sinn. Um er að ræða 300 kennslustunda námskrá sem byggir á fjórum bóklegum greinum sem fást metnar til einingar á framhaldsskólastigi.

Að sögn Halldórs Gunnlaugssonar verkefnastjóra hjá Farskólanum er hér um að ræða frábært tækifæri fyrir þá sem vilja taka upp þráðinn að nýju. „Við kennum íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku og þeir átta áfangar sem fást metnir úr til eininga úr þessu námi duga til að mynda iðnnemum til að ljúka þessum sömu fögum. Þeir eru margir sem hafa farið í gegnum þetta hjá okkur og lokið iðnnámi í framhaldinu,“ segir Halldór, en Farskólinn á í góðu samstarfi við FNV um mat á náminu.

Námið hentar raunar hverjum þeim sem vilja taka upp þráðinn á ný í námi og hafa náð 23 ára aldri. Til stendur að kennsla hefjist mánudaginn 10. nóvember og kennt verði frá kl. 18-21:45 á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum.

Bryndís Þráinsdóttir, forstöðumaður Farskólans, segir að þessi námskeið hafa gengið vel fram til þess og hún hafi raunar búist við að markaðurinn væri mettur í bili en vegna eftirspurnar sé nú verið að bæta við námskeiði. Verður það kennt í gegnum fjarfundabúnað á Skagaströnd, þar sem þegar eru komnir þrír nemendur, og ef til vill einnig á Blönduósi og Hvammstanga ef nemendur skrá sig þar.

Hægt er að stunda námið alfarið í gegnum fjarfundabúnað, en nemendur á öðrum stöðum eru einnig velkomnir á Krókinn, kjósi þeir það. Þá hittast nemendur gjarnan í upphafi og öðru hvoru á meðan á náminu stendur, en Bryndís segir að undantekningalaust myndist góð stemning og samstaða í námshópum sem þessum.

Fleiri fréttir