Frambjóðandi Samfylkingarinnar spyr og svarar sjálfum sér

Sigurjón Þórðarson

Frambjóðandi Samfylkingarinnar ber fram þá spurningu á opinberum vettvangi hvort Frjálslyndi flokkurinn sé á móti vistvænum veiðum. Í framhaldi af spurningunni vitnar viðkomandi í grein þar sem fram kemur að Frjálslyndi flokkurinn styður frjálsar handfæraveiðar, enda hefur flokkurinn borið fram tillögu þess efnis á Alþingi, ekki einu sinni heldur oft.

Það sem frambjóðendur Frjálslynda flokksins gera sér grein fyrir er að augljóst er að það er hægt að stórauka þorskveiðar á Íslandsmiðum. Það er sömuleiðis vægast sagt vafasamt að grauta saman veiðiheimildum handfærabáta og togveiðum eins og Samfylkingin virðist gera einhverra hluta vegna. Togveiðar hafa sjaldan eða aldrei verið minni en einmitt núna á miðunum í kringum Ísland.
Mig furðar nokkuð á því, en geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það, að Þórður Már virðist skella upp úr í hvert sinn sem hann les grein eftir mig um sjávarútvegsmál, hvort sem er um ábyrgð Samfylkingarinnar á mannréttindabrotum eða þegar ég geri athugasemdir við að Samfylkingin sverti störf togarasjómanna.

Hagsmunasamtök bæði íslenskra og erlendra sjómanna hafa séð ástæðu til að boða mig á fundi og biðja mig að halda erindi um stjórn fiskveiða og hvaða ástæða er fyrir því að fiskistofnar mælast minni eftir því sem minna er veitt. Skoskir og írskir sjómenn beittu sér fyrir því að ég, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Jørgen Niclasen, núverandi utanríkisráðherra Færeyja, héldum tölu í fiskveiðinefnd Evrópusambandsins fyrir nokkru.
Von mín er sú að frambjóðendur Samfylkingarinnar fari yfir þessi mál í alvöru, enda eru m.a. nýjar fréttir frá Færeyjum sem gefa skýrt til kynna að þorskstofninn sé á uppleið þrátt fyrir kröfu reiknisfiskifræðinga um að skera veiði niður um 50%. Það að auka veiðar núna þegar verulega kreppir að ætti að skoðast í fullri alvöru en ekki því glensi sem þjakar þennan frambjóðanda Samfylkingarinnar.
Í lokin er rétt að geta þess að ég sækist ekki eftir sæti á Alþingi vegna þess að ég sé á höttunum eftir þægilegri innivinnu, eins og frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi virðast telja. Ekki veit ég hvers vegna þeir telja að seta á löggjafarþinginu sé ávísun á eitthvert hóglífi. Þau ár sem ég sat á þingi lagði ég mig allan fram í vinnu og heiti fólki að gera það áfram ef tækifærið býðst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir