Framkvæmdastjóra Iceprótein og Protís sagt upp störfum

Dr. Hólmfríði Sveinsdóttur, sem stýrt hefur IceProtein og Protis á Sauðárkróki, hefur verið vikið úr starfi framkvæmdastjóra en fyrirtækin eru í eigu Fisk Seafood. Hluti af ýmsum skipulagsbreytingum sem gerðar hafa verið innan Fisk Seafood á undanförnum mánuðum, segir Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Fisk Seafood.

Starfsemi Iceprotein ehf. og Protis ehf. hafa vakið mikla athygli en það fyrrnefnda var sett á laggirnar fyrir rúmum áratug í framhaldi af rannsóknarverkefninu Fiskprótein sem fæðubótarefni sem Matís ohf, áður Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, stóð að í samvinnu við nokkur sjávar- útvegsfyrirtæki.

Protis ehf. hefur hins vegar sérhæft sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr þorski en hlutverk fyrirtækisins er að skapa verðmæti með því að þróa og markaðssetja heilsuvörur úr íslensku hráefni, sem aflað og unnið er á sjálfbæran hátt, fyrir viðskiptavini sem leita eftir hágæða náttúrulegum vörum. Þekktar eru heilsuvörur fyrirtækisins, Liðir, Endurheimt, Úthald og Kollagen og Hólmfríður, sem hefur meistaragráðu í næringarfræði og doktorspróf í matvælafræði, er höfundur að og hefur þróað.

Þá hefur hún fengið ýmsar viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf sitt m.a. hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri,  og árið 2016 hlaut hún Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins. Fimm konur starfa nú sem sérfræðingar hjá Iceprotein sem sinna rannsóknum og þróun í matvæla og fóðuriðnaði.

„Ég get staðfest þessa breytingu í mannahaldi Protis ehf. og Iceprotein ehf. en Hólmfríður gegndi starfi framkvæmdastjóra í þeim báðum. Breytingin er hluti af ýmsum skipulagsbreytingum sem gerðar hafa verið innan Fisk Seafood á undanförnum mánuðum. Tilgangurinn með þessum breytingum er meðal annars að einfalda skipurit starfseminnar sem rekin er undir merkjum Fisk Seafood með því m.a. að breyta sjálfstæðum félögum sem til þessa hafa haft sinn eigin framkvæmdastjóra í sjálfstæðar deildir innan Fisk Seafood. Starf framkvæmdastjóra Protis og Iceprotein er því lagt niður og þar af leiðandi er ekki fyrirhugað að ráða annan í það starf sem Hólmfríður gegndi,“ segir Friðbjörn. Engar aðrar breytingar en framangreindar eru fyrirhugaðar á stefnu eða þeirri starfsemi sem félögin hafa gegnt til þessa, að sögn Friðbjörns.

Hólmfríður vildi ekki tjá sig um breytingarnar þegar eftir því var leitað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir