Framkvæmdir í fullum gangi við Blönduskóla
Það er mikið um að vera í gamla íþróttasalnum í Blönduskóla þessa dagana og verður áfram næstu misserin, eins og fram kemur á heimasíðu skólans. Eins og sagt hefur verið frá á feykir.is hefur sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkt framkvæmdir við húsnæði skólans upp á 25 milljónir króna á þessu ári.
Áhersla verður lögð á að útbúa nýjan sal þar sem gamli íþróttasalurinn var en nýja salnum er ætlað að verða mötuneyti skólans í framtíðinni. Gert er ráð fyrir eldhúsi og smíðastofu í gömlu búningsklefunum.
Í framtíðinni er svo gert ráð fyrir að rífa gömlu sundlaugina og koma heimilis-og listgreinastofum fyrir í stað hennar. Þær framkvæmdir eru þó háðar fjárveitingum.
Á heimasíðunni kemur fram að spenningur ríki í skólanum vegna framkvæmdanna og hægt er að skoða myndir frá þeim á myndasíðu skólans.
https://picasaweb.google.com/grunnblond/FramkvMdirHafnar