Framlag til dreifnáms tryggt næsta árið

Í frumvarpi til fjárlaga 2015 kemur fram að tímabundin fjárveiting vegna framhaldsdeildar á Hvammstanga sé felld niður. Þau svör hafa nú fengist frá ráðuneyti menntamála til sveitarstjórnar Húnaþings vestra að framlag til deildarinnar sé tryggt og að árið 2015 verði eins og gert var ráð fyrir í sóknaráætlun.

Á vef Húnaþings vestra kemur fram að um er að ræða hluta af heildarframlagi til deildarinnar, þ.e. 3,4 m.kr. af 6,2 m.kr. framlagi sem gert er ráð fyrir til deildarinnar á yfirstandandi ári.

„Í fjárlögum 2014 var veitt 25 m.kr. framlag til að styrkja framhaldsdeildir á landsbyggðinni og er gert ráð fyrir að það sem upp á vantar vegna framlags til framhaldsdeildar á Hvammstanga verði tekið af því fé á næsta ári.“

Loks segir að á fundi sveitarstjórnar með þingmönnum kjördæmisins í gær hafi komið fram einarður vilji allra að fjármögnun dreifnáms í sveitarfélaginu verði tryggð til næstu 5 ára og hún sérgreind á fjárlögum.

Fleiri fréttir