Framtíðar uppbygging Þrístapa kynnt

Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps sem haldinn var í gær þann 12. desember 2018, fóru A. Agnes Gunnarsdóttir, ráðgjafi hjá Verus ehf, og Hringur Hafsteinsson, ráðgjafi hjá Gagarín, yfir framtíðar uppbyggingu við Þrístapa sem sveitarfélagið hefur verið að vinna að. Verkefnið er mjög metnaðarfullt enda standa vonir til að tugir þúsunda gesta muni staldra við og njóta sýningar með gagnvirkum miðlum sem eru nánast óþekktar, ekki síst á norðurhjaranum þar sem allra veðra er von.
Sú uppbygging sem mun eiga sér stað við Þrístapa verður unnin í nánu samráði við Minjastofnun Íslands þar sem aftökupallurinn og önnur mannaverk eru friðaðar menningarminjar. Í kynningu Gagarin af sýningu við Þrístapa kemur fram að aftaka Agnesar og Friðriks að Þrístöpum hafi lifað með þjóðinni alla tíð og greyptist í minningu fólks þar sem hún var sú síðasta hér á landi. Einnig vegna þess að aftakan hefur orðið að tákni um óréttlæti og ofbeldi gegn fólki sem stóð veikt fyrir.
Ákveðið hefur verið að stækka helgunarstað minjanna og um leið bæta aðgengi og upplýsingum til almennings með gerð sýningar um aðdraganda og afleiðingar morðsins á Natani Ketilssyni. Sýningin mun þræða aðdragandann, aftökuna og eftirmálin, en einnig fjalla um glæpi og refsingar á Íslandi í gegnum tíðina. Að lokum verður fjallað um aftökur í heiminum í dag.
„Þegar gestir nálgast Vatnsdalshólana munu þeir sjá áhugaverð fyrirbæri í fjarskanum sem tilheyra sýningunni og er ætlað að vekja upp forvitni og löngun til að stoppa og kynna sér svæðið. Á bílastæðinu við Þrístapa birtast þeim fyrstu upplýsingarnar og verður aðgangurinn eða anddyrið hannað sem „hlið að helgum stað“. Frásögnin hefst þegar gengið er í gegnum hliðið og fylgir hún gestum alla leiðina að Þrístöpum og aftur til baka,“ segir í kynningunni.
Reynt verður að spila á samkennd sýningargesta enda hefur dauði Agnesar og Friðriks alla jafnan haft mikil áhrif á fólk sem kynnst hefur þeirra sögu. Sigríður „hin unga“ verður sögumaður og hver áfangi mun enda á atburði, spurningu eða öðru því sem kallar á frekari upplýsingar.
Auk samkenndar með aðalpersónunum verður reynt að kasta ljósi á líf og aðgerðir annarra sögupersóna og reynt að skilja þeirra afstöðu og aðstæður. „Við viljum fá viðbrögð og að gesturinn fyllist reiði, fái gæsahúð og að það vakni fjölmargar spurningar í huga hans sem hann þá vilji leita svara við,“ segir í kynningunni.
Ferðin í gegnum sýninguna mun hvíla á góðu handriti, segir í kynningu, sem stýrir spennustiginu hverju sinni. Leitast verður við að ná samningi við færustu handritaskáld hvort sem er hér heima eða erlendis. Leiklesturinn verður í höndum erlendra og íslenskra stórleikara sem eru yfirlýstir andstæðingar dauðarefsinga.
Sýningin mun notast við einfalda og áhrifaríka tækni. Lýsing mun gera staðinn einstaklega spennandi þegar rökkva tekur en hljóð leika aðalhlutverk í frásögninni. Einstök myndverk munu framkalla hljóð til að auka upplifun þeirra sem ekki notast við hljóðleiðsögn.
Hljóðleiðsögnin mun verða að fullu sjálfvirk þannig að frásögnin verður staðsetningartengd og geta einstakar frásagnir því einungis heyrst á fyrirfram skilgreindu svæði.
Kostnaðaráætlun hljóðar upp á tæpar 82 milljón krónur án vsk. og skiptist þannig:
Landslagsgerð 24.100.000,-
Sýningargerð 50.500.000,-
Hljóðleiðsögn 3.400.000,-
Hugbúnaður 3.800.000,-
Samtals 81.800.000,-
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.