„Framtíðin þeirra en ekki fortíðin okkar“
Ingvi Hrannar Ómarsson er í opnuviðtali Feykis sem kom út í dag en hann hóf nýverið störf hjá Sveitarfélaginu Skagafirði sem sérfræðingur í skólaþróun og kennsluráðgjafi í upplýsinga- og tæknimálum innan allra grunnskóla í firðinum. Hann er grunnskólakennari og frumkvöðull að mennt og starfaði áður sem umsjónarkennari við Árskóla á Sauðárkróki.
Blaðamanni Feykis lék forvitni á að heyra hvaða verkefni hann hefur með höndum í dag, og hugmyndir hans um skólastarf á 21. öldinni en Ingvi Hrannar hefur ákveðnar skoðanir á skólakerfinu og fyrirkomulagi þess og segir m.a. „skólakerfið er ekki ónýtt, það er að gera nákvæmlega það sem það var hannað fyrir, helst að undirbúa fólk fyrir vinnu í verksmiðju. Málið er að kerfið er úrelt.“
Ingvi Hrannar byrjaði að blogga um hugleiðingar sínar, bæði á íslensku og á ensku, og hafa skrif hans fengið miklar og góðar undirtektir en heimasíða hans, www.ingvihrannar.com, stefnir í yfir milljón heimsóknir á þessu ári. Þá hefur hann einnig stofnað svokallað #menntaspjall á Twitter, ásamt Tryggva Thayer hjá Menntavísindasviði HÍ, en #menntaspjall er lærdómssamfélag, kennara og skólafólks á netinu.
Aðra hverja viku er Ingvi Hrannar einnig með svokallað Menntavarp, ásamt félaga sínum Ragnari Þór Péturssyni hjá Skema. Menntavarp eru þættir um menntamál sem sjónvarpað er á netinu, í gegnum í Google Hangout sem eru í raun myndsímtöl þar sem fleiri en tveir geta tekið þátt send út beint. Hægt er að fylgjast með í beinni útsendingu eða horfa á eldri upptökur af þáttunum á www.tackk.com/menntavarp.
Í viðtalinu er m.a. spurt af hverju þörf sé á að finna nýjar leiðir í kennslu. „Af því að samfélagið og atvinnulífið er að kalla eftir fólki með öðruvísi hugsun og kunnáttu en beðið var um á tímum iðnbyltingarinnar. Það er bara þannig - við getum ekki verið að gera það sama og við höfum verið að gera undanfarin 150 ár. Krakkarnir okkar eru að fara út í allt annan heim, framtíðin er ekkert eins og hún var og kennarar eru margir hverjir að undirbúa nemendur undir fortíðina sína en ekki framtíðina þeirra. Það hefur bara svo mikið breyst,“ svarar Ingvi Hrannar.
Viðtalið í heild sinni má lesa í Feyki sem kom út í dag en þar segir hann einnig frá því þegar hann vann að því að fá spjaldtölvur til kennslu í Árskóla, meistaranámi sínu í Frumkvöðlafræði í Háskólanum í Lundi í Svíþjóð þar sem lokaverkefni hans var smáforrit/app sem heitir BookRecorder og mörgu fleiru.