Framúrskarandi flutningur hjá Ragnhildi Sigurlaugu

Lokatónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla, voru haldnir hátíðlegir í Eldborgarsal Hörpu síðastliðinn sunnudag en þá fóru fram tvennir tónleikar þar sem nemendur af öllu landinu léku á hljóðfæri eða sungu. Alls voru 24 atriði á dagskránni, sem valin höfðu verið á svæðistónleikum sem haldnir voru fyrr í mars.
Í grunnnámsflokki komst áfram, af svæðistónleikum Norður og Austurlands, nemandi Tónlistarskóla Skagafjarðar, Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir frá Grænumýri. Mun það vera í fyrsta skipti sem nemandi frá skólanum kemst á lokatónleikana.
Ragnhildur lék Humoresku eftir Dvorak og hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning í flokki einleiksatriða í grunnnámi. Meðleikari hennar var Júlíana Rún Indriðadóttir píanóleikari. Einungis hlutu 10 atriði af 24 þesskonar viðurkenningu. Ragnhildur Sigurlaug er nemandi í 4. bekk í Varmahliðarskóla en hún hefur leikið lengi á fiðluna sína og stundar nú nám hjá Kristínu Höllu Bergsdóttur, sem einnig er móðir hennar.
Vinningshafi Nótunnar 2017 var Anya Hrund, píanóleikari frá Fáskrúðsfirði.
Hér fyrir neðan má sjá Ragnhildi leika Humoresku á tónleikunum í Hörpu.
Tónlistarskóli Skagafjarðar from FT on Vimeo.